William Smith (1769 - 1839) var enskur landmælingamaður og verkfræðingur sem helgaði 24 ár ævi sinnar í að kanna setlög Englands og teikna þau inn á jarðfræðikort. Hann starfaði annars við að mæla út legu fyrir skipaskurði og hanna skurðakerfi fyrir votlendi. Við vinnu sína öðlaðist hann skilning á lögmálum setlagafræðinnar því hún reyndist honum afar notadrjúg við starf hans.


William Smith tók eftir að mismunandi gerðir setlaga koma fyrir í mismunandi syrpum og að þau má greina út frá steindasamsetningu þeirra, jarðveginum sem þau mynda og steingervingum þeim sem í þeim finnast. Þannig gat hann sagt fyrir hvaða berglög þyrfti að grafa í gegnum við mannvirkjagerðina. Notkun Smiths á steingervingum var þýðingarmikil. Fyrir hans daga hafði steingervingum að vísu verið safnað en án þess að skrá nákvæmlega í hvaða lögum þeir hefðu fundist. Smith skráði hins vegar nákvæmlega fundarstaði þeirra og sá fljótlega að sumt berg mátti þekkja út frá þeim steingervingum sem í því fundust. Í fyrstu notaði hann þekkingu sína til að rekja setlög á tiltölulega takmörkuðu svæði saman. Síðar tókst honum að rekja saman setlög, álíka gömul en með ólíkri steindasamsetningu, á stórum svæðum. Að lokum leiddi þessi þekking til kenningarinnar um framvindu röð lífsamfélaga „the Principle of Biologic Succession“ en hún gerir ráð fyrir að lífsamfélög hvers skeiðs í langri sögu jarðar hafi verið einstæð. Vissar tegundir koma fram og hverfa og aðrar taka við. Jarðfræðingar geta því notað steingervinga lífvera og rakið saman jarðlög og raðað þeim upp í rétta tímaröð. Smith vissi hins vegar ekki hvers vegna sérhver jarðlagaeining hafði tiltekna steingervinga að geyma. Þetta var 60 árum áður en Darwin birti verk sitt Um uppruna tegundanna. Nú vitum við að lífið er í stöðugri þróun og nýjar tegundir þróast af þeim sem fyrir voru. Vegna þessara stöðugu breytinga á lífríkinu og þróunar er því aðeins að finna álíka samsafn steingervinga úr bergi frá svipuðum tíma.