Cuvier og Brongniart voru handan Ermarsundsins

Notkun steingervinga við að greina og finna samhengi milli jarðmyndana á mismunandi stöðum var ekki eingöngu uppgötvun William Smiths. Samtímis honum voru tveir vísindamenn handan Ermarsunds, í Frakklandi, að auka þekkingu manna í steingervingum. Þeir voru Georges Léopold Cuvier, barón, (1769 - 1832) og náinn samstarfsmaður hans Alexander Brongniart (1770 - 1847). Cuvier var sérfræðingur í samanburðarlíffærafræði og vegna þekkingar sinnar varð hann einn virtasti fræðimaður á sviði steingervingafræði hryggdýra. Brongniart var náttúrufræðingur og fékkst ekki einungis við steingervingafræði hryggdýra heldur einnig steingervingafræði plantna. Í félagi lögðu þessir vísindamenn grunninn að steingervingafræði hryggdýra. Þeir staðfestu uppgötvun Smiths um að steingervingar sýndu tiltekna framþróun tegunda innan vissrar syrpu jarðlaga og að þessi framþróun sé ávallt sú sama hvar svo sem þessa tilteknu syrpu sé að finna. Þeir tóku einnig eftir því að oft voru þykkir jarðlagastaflar aðgreindir af mislægjum og ofan mislægisins kemur auðsær munur á steingerðum dýrum í ljós.


Frönsku vísindamennirnir ályktuðu ranglega að saga lífsins einkenndist af gereyðandi náttúruhamförum þegar höf flæddu yfir meginlönd og skyndilegt jarðris fylgdi í kjölfarið. Þeir álitu að Nóaflóðið hefði verið síðasti atburður af þessu tagi. Cuvier og Brongniart trúðu að því að þessar náttúruhamfarir hefðu haft algeran útdauða lífs á jörðinni í hvert skipti og ný dýr og plöntur hefðu síðan komið fram á sjónarsviðið. Cuvier var ekkert að velta vöngum yfir því hvernig þessar nýju tegundir höfðu orðið til. Margir jarðfræðingar þessa tíma og þeirra á meðal Charles Lyell, héldu því fram að jarðsagan væri jöfn og stigvaxandi þróun og gátu því ekki samþykkt hugmynd Cuvier um gereyðandi náttúruhamfarir. Þannig byrjaði deila þeirra sem aðhylltust hamfarakenningu Cuviers og hinna sem fylgdu sístöðukenningu Lyells að málum og skyggði á deilur neptúnista og plútonista sem áður hefur verið minnst á.


Hamfarakenningin [catastrophism] var síðan endanlega kveðin í kútinn sem ótæk tilgáta. Eftir því sem setlagamyndanir voru raktar saman milli staða kom í ljós að snöggar breytingar á steingervingafánu stöfuðu af horfnum setlögum eða öðrum eyðum í jarðlagaannálum jarðsögunnar. Við nánari rannsóknir kom í ljós að eyður í steingervingaannálum væru trúlega ekki fyrirvaralausar og forvera sérhvers tegundahóps mætti finna í neðri setlögum. Margir þeirra sem aðhylltust hamfarakenninguna og þar á meðal Cuvier, gátu ekki skýrt hvernig sérhver ný tegund dýra kom skyndilega í ljós á jörðinni. Eitt af því sem hamfarasinnum gekk hvað erfiðast að skýra var sá þáttur í kenningu þeirra að jörðin væri aðeins nokkurra þúsund ára gömul og að allar hamfarirnar hefðu átt að gerast á tiltölulega skömmum tíma. Þeim sást yfir hugmyndir Huttons um langan aldur jarðar.