Piparrót, [Armoracia rusticana]


Dk: peberrod; En: horseradish; De: Meerrettich


 

Piparrót er fjölær jurt af krossblómaætt með löngum blöðum og sívölum rótarhnýðum með sterkt bragð og lykt. Rótin er notuð sem grænmeti, krydd í mat og í náttúrulyfjum. Úr henni er gerð svokölluð piparrótarsósa sem viðbit með öðrum mat.

Piparrót verður allt að 1,5 m há, með hárlausum skærgrænum óflipuðum laufum allt að 1 m löng og gæti þess vegna verið tekin í misgriðum fyrir njóla (Rumex). Krónublöðin eru 4 hvít og ilmandi. Plantan er fyrst og fremst ræktuð vegna stóru, hvítu, aflöngu rótarinnar. Plantan er ágeng líkt og njólinn og þarf því að takmarka útbreiðsluna.
Ósnortin piparrótarrótin hefur lítinn ilm en Þegar hún er skorin eða rifin mynda ensím innan úr plöntufrumunum sinigrin til að framleiða Allyl isothiocyanate (sinnepsolía), sem ertir slímhimnur í ennis- og kinnholum og augum. Þegar piparrótin kemst í ferskt loft eða hita, missir hún sterka bragðið, dökknar hún og myndar beiskt bragð.
Piparrót er mjög C-vítamínrík og inniheldur td. þrisvar sinnum meira af því en sítrónur og á miðöldum var piparrót notuð við skyrbjúg.