Orsakir sjávarseltunnar

Selta hafanna úthafanna er að meðaltali 35‰ en örlítið breytileg eftir hnattstöðu - allt frá 33 - 37‰. Skýrast hæstu gildin af mikilli uppgufun t.d. við hvarfbaugana en lágu gildin af mikilli úrkomu eða nálægð við ósa stórfljóta.


Selta innhafa er enn breytilegri. Þannig er Eystrasalt með 10‰ og Rauðahaf 41‰.


Ekki er auðvelt að útskýra hvers vegna sjórinn er saltur. Líklega hefur mestur hluti uppleystra efna í höfunum borist í þau við veðrun jarðskorpunnar frá því að þau mynduðust.


Það sem einkum gerir málið flókið er að efnasamsetning fallvatna og bergtegunda á landi er að flestu leyti gerólík efnasamsetningu sjávar. Árnar bera t.d. rúmlega helmingi meira af kísli (Si) en klóri (Cl) en í sjónum er kísilmagnið mörg þúsund sinnum minna en klórmagnið.


Efni sjávar má skipta í þrjá flokka eftir því hve hlutfallslegt magn þeirra líkist því sem er að finna í berglögum.


  1. Af klóri (Cl), brennisteini (S) og brómi (Br) er meira magn í sjónum en þangað hefði getað borist við veðrun jarðskorpunnar. Líklegt er að þessi frumefni hafi verið í loftkenndu ástandi í fyrstu en borist í höfin þegar jörðin tók að kólna. Nú berst lítið eitt af þessum efnum í gufuhvolfið í eldgosum og þaðan í hafið. Auk þess berast þessi efni í höfin við neðansjávargos og útskolun í hverastrýtum á rekhryggjum.

  2. Af kalsíni (Ca), natríni (Na), kalíni (K), magníni (Mg), strontíni (Sr) og joði (I) er talsvert minna magn í sjónum en talið er að þangað hafi getað borist við veðrun jarðskorpunnar.

  3. Af kísil, áli og járni, sem eru aðalefni bergtegunda, er afar lítið í sjónum.

Að verki hljóta því að vera öfl sem takmarka magn ýmissa efna í upplausn. Þar kemur einkum þrennt til greina: uppleysanleiki, sérstakar efnabreytingar og starfsemi lífvera.


Kalsín eyðist úr sjónum með tvennu móti. Annars vegar fellur það út sem kalsínkarbónat (CaCO3) í ólífrænum efnabreytingum og hins vegar fer mikið magn kalsíns í að mynda skeljar og kuðunga lindýra, kórala ofl. Af öllu því kísilmagni sem hafinu berast með fallvötnum verður aðeins örlítill hluti eftir í upplausn. Hinn hlutann nota kísilþörungar við byggingu stoðgrindar sinnar.



Helstu uppleyst sölt í hafinu: |T|


Helstu snefilefni í hafinu: |T|