Orkulindir

Orkulindum er gjarna skipt í endurnýjanlegar [renewable energy sources] og endanlegar orkulindir [non-renewable energy sources] og er þá miðað við hvort nýting þeirra gangi ekki á forðann eða að hún skerði tækifæri komandi kynslóða til að nýta sér þær um ókomna framtíð.


Eðlilegt er að skilja hugtakið endurnýjanleg orkulind þannig að hún endurnýist nokkurn vegin jafnóðum og af henni er tekið eða amk. á sama tíma og vinnslan á sér stað. Einnig gætir þess skilnings að ásættanlegt sé að orkulindin endist nægilega lengi miðað við tiltekna notkun td. í 300 ár eða meira.



  Endurnýjanlegar orkulindir eru: Sólgeislun, orka vatnsfalla, vindorka, orka sjávarfalla og hafstrauma.
  Endanlegar orkulindir eru: Jarðeldsneyti eins og jarðgas, olía og kol.

Ekki er alltaf ljóst hvernig orkulindir jarðvarma falla að þessari flokkun. Vinnsla hans fer fram úr jarðhitageymum þar sem varmaorka hefur safnast saman í bergi og í vatninnu í holrúmi þess á tugum eða hundruðum þúsunda ára. Í slíku kerfi er orkulindin endurnýjanleg að því marki að vinnslan fari ekki frám úr hinu náttúrulega varmastreymi inn í hringrásina. Orkuvinnsla umfram það verður að sækja varmaorku í heitt berg í jarðhitageyminum og telst því varmanám í endanlega orkulind.


Segja má að orkulind jarðhita sé endurnýjanleg þar sem byggt er á sjálfrennsli eða etv. örlitlu umfram það en nám með mikilli dælingu, lækkun grunnvatnsstöðu og innstreymi kalds vatns inn í kerfið kemur til með að tæma orkulindina við einhver tímamörk.1


Kjarnorka er við núverandi aðstæður endanleg en með bættri tækni er litið svo á að úran komi til með að endast um ókomna framtíð.2


Heimildir:    
1 Guðmundur Pálmason 2005: Jarðhitabók — Eðli og nýting auðlindar. HÍB, Reykjavík.
2 Fetter, Steve 2009: „How long will the world's uranium supplies last?“ Scientific American March 2009; 84.