Kalsít sem oft er einnig nefnt kalkspat er ein algengasta holufyllingin hér á landi. Það er oftast ljóst eða hvítleitt en getur litast af aðkomuefnum einkum járnsamböndum og verður þá gulleitt eða rauðleitt.
|einkenni| Algeng kristalform: ◊
Lítið er af kolefni í fersku bergi, aðeins nokkur hundruð ppm, en í ummynduðu bergi getur kalsít verið allt að 20% af þunga bergsins, en það jafngildir því að kolefni sé um 2% af þunga þess. Því er ljóst að mikil aukning hefur orðið á kolefni við ummyndunina. Kolefnið á líklega uppruna sinn að rekja til möttulsins og hefur það borist þaðan með kvikunni.
Kristalkerfi kalsíts er trígónal en formin eru mjög mismunandi og eru um 500 afbrigði þekkt. Tvö algeng kristalform eru skálaga tígulflötungar með 6 tígullaga hliðarflötum sem eru samsíða tveir og tveir (rhombohedron) og ójafnarma þríflötungur (scalenohedron, hundstönn).
Kleyfni er mjög góð og brotnar kalsítið í skáteninga með 105° og 75° hornum.
Litur: Kristall litlaus og tær, eða litaður brúnn af framandefnum, einkum Fe+2. Einnig getur kalsítið verið hvítt og ógagnsætt. Brúnleit afbrigði af kalsíti eru silfurberg og sykurberg.
Silfurberg [En: Iceland spar; De: Doppelspat; Dk: dobbeltspat] er vatnstært og ýmist kristallað í fallegum rhombohedron eða schalenohedron kristöllum. ◊ ◊ ◊ Að utan eru kristallarnir oft mattir en úr þeim má kljúfa tæra skáteninga. Tvöfalt ljósbrot er meira áberandi hjá silfurbergi en flestum öðrum steindum því að það skautar ljósið mjög vel og sést það vel í tærum molum. ◊ Vegna ljósbrotseiginleika sinna ◊ var silfurberg notað í smásjár sem ætlað var að skauta ljósið. Í þessum tilgangi var það unnið í Helgustaðarnámu við Reyðarfjörð og flutt út uns tilbúin og ódýrari efni komu í þess stað. Stærsti silfurbergskristallinn sem þekktur er, u.þ.b. 220 kg, fannst einmitt í þessari námu í Reyðarfirði og er hann geymdur í British Museum. Sjá grein Leós Kristjánssonar 2007: Silfurberg og þáttur þess í þróun raunvísinda og ýmissar tækni …
Sykurberg er brúnleitt eða rauðleitt afbrigði af kalsíti. Liturinn stafar af járnmengun þegar Fe+2 sest í sæti Ca+2 í kristalgrindinni. ◊
Kalsít leysist illa upp í hreinu vatni en aftur á móti auðveldlega í kolsýrumenguðu vatni (H2CO3). Víða í kalklögum erlendis hefur súrt grunnvatn leyst upp kalk og skilið eftir stór holrúm sem síðar urðu að dropasteinshellum þegar grunnvatnsstaðan breyttist og lækkaði.
Kalkhrúður myndast oft kringum heitar ölkeldur þegar CO2(g) rýkur úr vatninu. Járnmengað vatnið veldur oft brúnleitum lit á kalkinu.
Kalsít freyðir í þynntri saltsýru, HCl, þegar CO2(g) myndast og rýkur út í loftið. Einnig gefur kalsít frá sér CO2(g) þegar það er hitað (glóðað) og breytist það þá í brennt kalk, CaO. Kalk var fyrrum lítilsháttar numið í Esju hjá Esjubergi, en þar eru kalsítæðar í berginu. Það var síðan brennt í kalkofninum sem stóð hjá Kalkofnsvegi í Reykjavík. Kalsít er mjög algengt og finnst víða sem holufylling og er það þannig algengt bindiefni í sandsteini. Ásamt zeolítum er það bindiefni í móbergi.
Kalk er einnig aðaluppistaðan í bergmyndunum eins og marmara, kalksteini og krít. Dólómít er blanda kalsíts og magnesínkarbónats, MgCO3. Erlendis myndar dólómít heil fjöll en hér á landi er það mjög fágætt.