Við norðanverðan Sveifluháls, um 2 km vestan Vatnsskarðs, eru upptök dyngju sem heitir Hrútagjárdyngja. ◊ Hún dregur nafn sitt af gjá sem liggur umhverfis gígsvæðið. Er þarna um sérstæða myndun að ræða. ◊
◊
◊
Gígsvæði Hrútagjárdyngju er hraunslétta með gapandi gjám á þrjá vegu.
Gígurinn sjálfur er óreglulegur með 10-14 m háa, bratta gígbarma. Gígurinn er opinn til suðurs og hefur hraunið aðallega runnið í þá átt. Um 10 m djúpur sigketill er skammt norðvestan aðalgígsins. Undir lok gossins hefur kvika troðist undir gígsvæðið og belgt það upp og hraunbunga (hraunfyllt kýli) myndast; risfláki. Hún hefur verið allt að 30 m há. Ljóst er að yfirborð hraunsins hefur verið storknað er kvikan fór að lyfta því. Síðar hefur kvikan fengið útrás um hraunrásir eða slokast ofan í gosrásina og yfirborð hraunbungunnar þá sigið. Sprunga hefur myndast umhverfis gígsvæðið (vestan megin heitir hún Hrútagjá) og það tekið á sig núverandi mynd. Löngu síðar hefur gossprunga opnast á gígsvæði Hrútagjárdyngju og skilið eftir sig talsverðan hraunflekk.
Hraunin frá Hrútagjá hafa breytt úr sér til norðurs og runnið til sjávar vestan Hafnarfjarðar, á milli Vatnsleysuvíkur og Hvaleyrarholts. Hraun í svonefndum Almenningi, suður af Straumsvík, eru að mestu frá Hrútagjárdyngju komin. Myndarlegir gervigígar eru í hrauninu skammt sunnan Reykjanesbrautar sem myndast hafa þegar hraunið rann yfir sjávarset. Samkvæmt gjóskulagarannsóknum er Hrútagjárdyngjan um 6000-6500 ára gömul og er ein af þeim yngri á Reykjanesskaganum. Sjáanlegt flatarmál dyngjunnar er um 80 km2 og rúmmál hefur verið áætlað rúmir 3 km3. Um lágmarkstölur er að ræða en dyngjan er að stórum hluta hulin yngri hraunum.1
Heimild: | ||
1 | Magnús Á. Sigurgeirsson, 2010 < http://www.isor.is/21-hrutagja-risflaki > |