Tilvitnanir í íslensk fornrit þar sem orðið hekla er notað um flík.



Landnámabók
101. kafli
Steinuður hin gamla, frændkona Ingólfs, fór til Íslands og var með Ingólfi hinn fyrsta vetur. Hann bauð að gefa henni Rosmhvalanes allt fyrir utan Hvassahraun, en hún gaf fyrir heklu flekkótta og vildi kaup kalla; henni þótti það óhættara við riftingum.
Bárðar Saga Snæfellsáss
18. kafli
Og er þeir komu norður fyrir Dumbshaf kom maður af landi ofan og réðst í ferð með þeim. Hann nefndist Rauðgrani. Hann var eineygur. Hann hafði bláflekkótta skautheklu og hneppta niður í milli fóta sér.
FLJÓTSDÆLA SAGA
21. kafli
Þorkell sér að þar gengur fram maður einn í blám kyrtli og heklu grárri. Sá maður var ákaflega þreklegur en eigi hár.
FóSTBRÆÐRA SAGA
14. kafli
Einn dag er Illugi áði hesti sínum með sínu föruneyti kom þar maður einn ríðandi á áifanga. Sá var í hvítri heklu. Hann kvaddi Illuga. Hann tók kveðju hans og spurði hver hann væri.
FÆREYINGA SAGA
48. kafli
Gengu þeir Leifur þá út og skammt frá búðinni; settust þeir þá niður og reiddu þá silfrið. Karl tók hjálm af höfði sér og hellti þar í silfri því er vegið var. Þeir sá mann ganga hjá sér og hafði refði í hendi og hött síðan á höfði, heklu græna, berfættur, knýtt línbrókum að beini. Hann setti niður refðið í völl og gekk frá og mælti.
GRETTIS SAGA
12. kafli
Þorkell máni hafði þá lögsögu. Var hann þá beiddur úrskurðar. Honum kveðst það lög sýnast að nokkuð hefði fyrir komið þótt eigi væri fullt verð „því að svo gerði Steinunn hin gamla við Ingólf afa minn að hún þá af honum Rosmhvalanes allt og gaf fyrir heklu flekkótta og hefir það ekki rift orðið. Munu þar stærri rið í vera. En hér legg eg til ráð,“ segir hann, „að skipað sé brotgeiranum og hafi hvorirtveggju að jafnaði. Síðan sé það lögtekið að hver eigi reka fyrir sinni jörðu.“
HARÐAR SAGA OG HÓLMVERJA
15. kafli
En er vor kom bjóst Hróar við tólfta mann til haugs Sóta. Þeir riðu um skóg þykkvan. Og í einhverjum stað sá Hörður hvar lá af skógarbrautinni lítill leynistigur. Hann ríður þenna stig þar til er hann kemur í eitt rjóður. Þar sér hann standa eitt hús bæði mikið og skrautlegt. Maður stóð úti fyrir húsinu í blárendri heklu. Hann heilsar Herði með nafni.
KRÓKA-REFS SAGA
20. kafli
Eiríkur býr nú ferð sína og þeir menn sem honum skyldu fylgja. Léttu þeir ekki sinni ferð fyrr en þeir komu til Danmerkur og lágu við Jótland í góðri höfn nokkura daga. Sem þeir komu þar þá kom af landi ofan karl einn gamall við tvo stafi og í vondri heklu og hvítt skegg af hæru. Þeir fögnuðu honum vel. Þeir spurðu karl að nafni. Hann nefndist Sigtryggur.
LAXDÆLA SAGA
63. kafli - Af sauðamanni Helga
Sveinninn mælti: „Þá sat maður í standsöðli og hafði ysta heklu blá og silfurhring á hendi. Sá var búandlegur og heldur af æsku aldri, dökkjarpur á hár og hrökk mjög. Hann hafði ör í andliti.“.
SVARFDÆLA SAGA
5. kafli
Þá er ljóst var um morguninn lagði Þorsteinn farm sinn og lét greiða atróður og sagðist vilja tala með víkinga. En er þeir komu að þeim stóð upp maður á drekanum og gekk út á borðið. Sá var í rauðum skarlatskyrtli og heklu blá yfir sér, hlaðbúna húfu á höfði. Sá kallaði á drekanum og spurði hver þar gerði svo gildan atróður.
VOPNFIRÐINGA SAGA
3. kafli sem mannnafn konu
Í þann tíma er Þorsteinn bjó að Hofi og Brodd-Helgi óx upp með honum þá bjó sá maður í Krossavík hinni ytri er Lýtingur hét og var Ásbjarnarson, Ólafssonar, Lauga-Hallssonar. Hann var vitur maður og vel auðugur að fé. Hann átti konu er Þórdís hét, dóttur Heklu-Bjarnar Arnfinnssonar. Þau áttu tvo sonu þá er við þessa sögu koma. Hét annar Grímur eða Geitir en annar Blængur. Halla hét dóttir Lýtings en önnur Rannveig og var hún gift í Klifshaga í Öxarfjörð þeim manni er Ólafur hét. Þeir voru mjög jafngamlir, bræður og Brodd-Helgi, og var með þeim vinfengi mikið.
ÖGMUNDAR ÞÁTTUR DYTTS Þá gekk maður ofan úr bænum. Sá var í heklu. Hún var ger af skarlati og saumuð öll brögðum. Heklumaðurinn gekk ofan á bryggjurnar og spurði hver fyrir bátinum réði. Ögmundur sagði til sín.
ÓLAFS SAGA HELGA
143. Saga Mæra-Karls
Þrándur sagði að honum þótti best til fengið að Leifur sæi fyrir hans hönd. Gengu þeir Leifur þá út og skammt frá búðinni. Settust þeir þá niður og reiddu silfrið. Karl tók hjálm af höfði sér og hellti þar í silfri þá er vegið var. Þeir sáu mann ganga hjá sér og hafði refði í hendi og hött síðan á höfði og heklu græna, berfættur, knýtt línbrókum að beini.