Grunnvatnslinsa

Berggrunnur eyja og annesja er víða mettaður af sjó. Þetta verður einkum þar sem jarðlög eru gropin eins og á utanverðum Reykjanesskaga . Úrkoma sem fellur á Reykjanesskagann hripar niður um lek berglögin, safnast saman neðanjarðar og myndar ferskt grunnvatn. Ferskvatnið er eðlisléttara en sjórinn og flýtur því á honum eins og olíudropi á vatni og myndar þannig svokallaða grunnvatnslinsu. Hún er þynnst við strendurnar en þykknar inn til landsins. Þykkt grunnvatnslinsunnar er venjulega u.þ.b. fertugföld hæð grunnvatnsflatarins yfir sjávarmáli. Neðst í grunnvatnslinsunni á mótum ferskvatns og sjávar er lag af ísöltu vatni vegna blöndunar ferskvatns og sjávar. Ísalta lagið er þykkast úti við ströndina þar sem berggrunnur er afar gropinn og lekur og sjávarfalla gætir mest.