Farvegir vatnsfalla

Rof vatnsins byrjar um leið og regndropar falla á landið. Skiptir þá miklu máli hvort yfirborðið er hörð klöpp, laus fínkorna ógróinn jarðvegur eins og moldarflög eða vel gróið land. Regndropi sem fellur á moldarflag í mikilli rigningu hrærir upp í yfirborði flagsins þannig að fínustu kornin skolast burt með vatninu í næsta læk eða á. Því skiptir það svo miklu máli að fínkorna jarðvegur sé varinn með gróðurþekju. Tré og runnar taka stærsta höggið af dropunum og þéttur svörður bindur jarðveginn og tefur fyrir því að vatnshimna, sem flutt getur efnisagnir, nái að myndast og flæða óhindrað um yfirborðið og í næsta farveg.


Vatnsföllin eru óþreytandi við að sverfa landið og grafa sér farvegi. Langsnið af farvegi vatnsfalls sem hefur ótruflað fengið að móta hann sýnir íhvolfan flöt. (b) Yfirleitt er brattinn mestur við upptökin en fallhæðin minnkar eftir því sem neðar dregur og nær rofmörkum en þau eru þar sem vatnsfall fellur í sjó eða stöðuvatn. Tímabundin rofmörk geta myndast í stöðuvötnum þar sem skriður og hraun hafa stíflað farvegi eða jökull skilið eftir berghöft í landslaginu. Stíflur vatnsaflsvirkjana hafa sömu áhrif. Jarðhnik og misgengissprungur valda einnig truflun á þróun farvegar og legu hans. Í raun ná flest vatnsföll aðeins að nálgast fullkominn íhvolfan rofflöt vegna þess hve aðstæður í landslagi eru breytilegar á leið þeirra til sjávar.


Við upptökin þar sem brattinn er hvað mestur er landmótun vatnsfalla jafnan augljósust þar sem þau grafa gil og dali í landslagið. Væru vatnsföllin ein að verki litu gilin út sem þverhnípt gljúfur en veðrun og jarðskrið sjá til þess að dalurinn verður smám saman V-laga báðum megin farvegarins. Hér á landi er lítið um slíka dali vegna þess hve skammur tími er liðinn frá því að jökla leysti. Lengst er myndun slíkra dala komin hér á landi þar sem berg er straumflögótt og mikið er um skriður eins og á líparítsvæðum t.d. í Landmannalaugum.


Í ungu hálendu landslagi eins og hér á landi er rof vatnsfalla skammt á veg komið og farvegir vatnsfalla alsettir þrepum og ójöfnum. (1a) Þau falla því á flúðum og í fossum þar sem mishörð jarðlög skiptast á eða þar sem jökulrof, sjávarrof eða jarðskorpuhreyfingar hafa truflað rof ánna.


Fossbrúnir myndast á hörðum jarðlögum sem hlífa mjúku undirlagi. Mjúka undirlagið grefst undan hinu harða sem slútir þá fram yfir sig og brotnar smám saman niður. Þykk lárétt og stuðluð hraunlög mynda oft háa fossa eins og Gullfoss og Dettifoss en þunn hraunlög sem hallar á móti straumi árinnar mynda hins vegar flúðir eins og neðst í Laxá í Kjós eða Fjallfossi í Arnarfirði.


Þar sem straumharðar ár renna út úr gilkjafti eða þröngum dölum víkkar farvegurinn skyndilega. Rofkrafturinn minnkar þess vegna og árnar hlaða upp aurkeilum og fylla dalina neðanverða. Efst í slíkum dölum falla vatnsföllin á eyrum (a) en þegar neðar dregur og nær rofmörkunum ná árnar ekki að grafa sig dýpra og rofkrafturinn fer í að víkka dalinn og farvegurinn að bugðast eftir flatlendinu. (b-c) ◊. Við slíkar aðstæður verða dalirnir (\______/)-laga (troglaga).


Vatnsföll með bratta og ójafna farvegi eru sögð ung en þroskuð þegar farvegirnir ná að jafnast. Landsvæði, þar sem rof hefur sorfið flestar mishæðir niður að rofmörkum, kallast rofslétta. Rofsléttur verða aðeins til á mjög löngum tíma þar sem rof hefur staðið ótruflað um milljónir ára.