Reiknað hefur verið út hver styrkur C02 í gufuhvolfinu hefur verið á hinum ýmsu tímum jarðsögunnar eins og sjá má á mynd. ◊ Það sem einkum vekur athygli er hve styrkurinn hefur lækkað frá lokum ordóvísíum til upphafs kolatímabilsins. Þessi lækkun á styrk CO2 er talin stafa af aukinni veðrun á þessum tíma. Veðrun jókst á devon vegna þróunar fenjaplantna sem gerði þeim kleyft að leggja undir sig þurrlendi. Þessi þróun leiddi til þess að skógar á þurrlendi náðu umtalsverðri útbreiðslu í fyrsta sinn. Talið er að veðrun aukist sjöfalt við að skógur leggi undir sig áður gróðurvana land.
Lækkun CO2 á devon- og kolatímabilinu verður þó ekki eingöngu skýrð með aukinni veðrun. Stórfelld greftrun kolefnis í mýrum og fenjum kolatímabilsins á þar stóran þátt en hún hindrar að það CO2, sem bundist hefur í lífverum, berist aftur til gufuhvolfsins.
Sú mikla lækkun á CO2 sem varð á devon- og kolatímabilinu ætti að hafa minnkað mjög gróðurhúsaáhrif gufuhvolfsins. Þess vegna mætti gera ráð fyrir myndun mikilla jökla á suðurhveli. Ekki má einblína um of á styrk CO2 í þessu sambandi heldur þarf að hafa í huga að á kambríum-, ordóvísíum- og sílúrtímabilinu var geislun sólar mun veikari en síðar varð.
Mikið hefur verið rætt um hvort aukið magn CO2 í gufuhvolfinu og einnig að aukin gróðurhúsaáhrif geti haft óheillavænleg áhrif á hitafar á jörðinni. Sjálfsagt geta þau verið nægileg til að valda umtalsverðum breytingum á jöklum og þar með hækkun sjávarborðs. Veðrun hefur hins vegar afturverkandi áhrif. Aukinn styrkur CO2 veldur hlýnandi loftslagi en þá eykst veðrunin og um leið gengur á CO2-forða gufuhvolfsins. ◊