Basalteldstöðvar og eldvörp þeirra geta verið nánast hvar sem er á sprungusveimnum og framleiða þær eingöngu basísk gosefni eins og nafnið bendir til. Þær eru flestar á sprungum og hafa því aflangt gosop sem oft breytist í sívalt gosop þegar á gosið líður. Basískar eldstöðvar gjósa ýmist hraungosum, blandgosum eða sprengigosum og teljast aðeins gjósa einu gosi, sem staðið getur langan tíma og oft með hléum.
Það sem mestu veldur um hegðun basískra gosa er seigja kvikunnar og snerting hennar við vatn. Seigjan ræðst fyrst og fremst af hitastigi kvikunnar og fjölliðun sameindanna í bráðnu efninu. Það sem hindrað getur fjölliðun sameinda er magn vatnsgufu og fjöldi jóna í kvikunni.
Sjá töflu.