Reykjanes- Norðurbeltið — Austurgosbeltið

Gosbergið sem hlóðst upp á Snæfellsnesrekbeltinu fergði jarðlögin á gosbeltinu þannig að samhverfa myndaðist og það sama gerðist síðar á Reykjanes-Langjökuls-rekbeltinu. Þegar samhverfur myndast svona nálægt hver annarri og jafnframt samsíða hvelfast jarðlögin á milli þeirra upp í andhverfu sem í þessu tilfelli liggur um Borgarnes og kallast Borgarnesandhverfan. Þar skjóta því upp kollinum um 13 milljón ára gömul jarðlög nú. Sjá mynd:


Þegar nyrðri hluti Snæfellsnesrekbeltisins kulnaði út fyrir um 4 milljónum ára færðist rekbeltið til austurs og rek og eldvirkni hófst þar sem nyrðri hluti Austurrekbeltisins er nú. Samhverfan sem varð til á þessu nýja rekbelti myndaði andhverfu milli Axarfjarðar og Skaga þar sem 12 milljón ára gamalt berg er nú að finna. Þetta nýja rekbelti tengist Reykjanes-Langjökulsrekbeltinu um þverbelti, Mið-Íslandsbeltið, en að norðan tengist það Kolbeinseyjarhryggnum um Tjörnes-þvergengið sem er hægra sniðgengi. Sjá lið c á mynd


Suðurhluti Austurbeltisins varð virkur fyrir um 2 milljónum ára þegar gliðnunin og eldvirknin á norðurhluta Austurbeltisins breiddist til suðurs. Við það fergðust jarðlögin og Hreppaandhverfan varð til milli suðurhluta Austurbeltisins og Reykjanesskaga.


Mið-Íslandsbeltið er þverbrotabelti skástígra víxlgengja með mörgum virkum megineldstöðvum og líklega er það framhald þverbrotabeltisins á Snæfellsnesi sem einnig er með virkum eldstöðvum. Sjá mynd:


Hegðun jarðskjálfta á Suðurlandi bendir til þess að nýtt þverbrotabelti sé að myndast þar á milli Hveragerðis og Heklu. ◊. Því kann svo að fara að nyrðri hluti Reykjanes-Langjökuls-rekbeltisins, frá Þingvöllum til Langjökuls, kulni út en suðurhluti Austurbeltisins verði virkt rekbelti og taki við hlutverki þess. Þá verður núverandi Mið-Íslandsbelti, með sínum miklu megineldstöðvum í Hofsjökli, Kerlingarfjöllum og Langjökli að framhaldi Snæfellsness. Það verður innlyksa á Ameríkuflekanum, en nýtt þverbrotabelti á Suðurlandi frá Hveragerði til Heklu, kemur til með að tengja Reykjanesrekbeltið og Austurbeltið.