Set

Set kallast það þegar ný jarðlög verða til úr bergmylsnu eða efnisögnum sem setjast til eða falla út og mynda ný jarðlög. Með tíð og tíma límist setið saman og verður að föstu bergi sem nefnist setberg. Hversu hratt setið harðnar fer eftir aðstæðum. Set úr óstöðugum glerkenndum efnum eins og eldfjallaaska límast fljótt saman, einkum með holufyllingum sem verða til úr efnum sem leysast úr kornunum. Mýrarauði, kísill og kalk hafa einnig mikil áhrif auk þrýstings og hita.


Setberg er gróflega flokkað eftir myndunarhætti í molaberg og efnaset. Flokkunin er fyrst og fremst gerð til að hægt sé að lýsa setinu á skipulegan hátt og gera sér grein fyrir þeim aðstæðum sem ríktu þegar setið settist til.