Molaberg:

Molaberg [Gr:klastos: brotinn; En: clastic rock, clastic sediment] er fyrst og fremst flokkað eftir kornastærð. |T| Það er auk þess flokkað eftir flutningshætti, myndunarstað, lagskiptingu korna, áferð og þeim steintegundum sem það er gert úr. Nokkur dæmi:


a

Vatnamyndanir: Ár- og vatnaset:
Kornastærð: Allar kornastærðir koma fyrir.

Aðgreining og lagskipting korna: Korn eru vanalega vel aðgreind, víxl- og linsulaga á áreyrum, skálaga neðan til í óshólmum og með láréttri lagskiptingu á botni stöðuvatna. Jökulár geta myndað hvarfleir sem myndar árstíðabundna lagskiptingu og aðgreiningu korna.

Áferð korna: Eftir því sem kornin velkjast lengur slípast þau og verða ávalari (völuberg).

Steindir: Eftir því sem kornin velkjast lengur tapast veikustu steindirnar eins og glimmer og feldspat. Þessa gætir lítið hér á landi vegna stuttrar flutningsleiðar. Þungar steindir setjast ennfremur fyrr til en léttar.

Gull, platína og demantar geta aðgreinst frá öðrum kornum, sest til og myndað arðbær námasvæði.

Leifar dýra- og plöntusvifs, auk steingerðra jurtahluta, finnast oft í vatnaseti.



b Vindborið set: Foksandur, gjóska, löss.

Kornastærð: Aðeins fínustu kornin berast með vindi og kornastærð er háð vindstyrk.

Aðgreining og lagskipting korna: Grófustu kornin falla fyrst sem best sést í gjóskugeirum eldfjalla. | Hekla 1104 | Korn í eldfjallaösku og annarri gjósku eru vel aðgreind eftir stærð auk þess sem foksandurinn er vanalega með áberandi víxllögun.

Löss eru vindborið set úr mélu og vanalega ekki lagskipt sem líklega stafar af róti plantna og dýra meðan á myndun stendur.

Áferð korna: Korn foksands eru oft með mattri áferð vegna snöggra árekstra sem þau verða fyrir við önnur korn. Korn gjósku eru sjaldnast núin.

c Jökulborið set: Jökulurðir, jökulöldur → jökulberg.

Kornastærð: Allar kornastærðir koma fyrir.

Aðgreining og lagskipting korna: Lagskipting er engin því jökullinn vöðlar öllu saman.

Áferð korna: Kornin eru núin en hvergi nærri eins vel og hjá vatna- eða sjávarseti. Þau eru oft með rispum.

Steindir, bergtegundir: Oft má sjá í jökulruðningi korn úr sérkennilegum bergtegundum sem óvíða finnast. Þannig hafa grettistök verið notuð til að sýna fram á rennslisleiðir jökla í Skandinavíu og Ölpunum.

d Hrun: Þursaberg.

Kornastærð: Allar kornastærðir koma fyrir.

Aðgreining og lagskipting korna: Engin lagskipting.

Áferð korna: Ónúin korn með brotsári og hvössum brúnum.

Steindir, bergtegundir: Segja til um uppruna hrunsins.

e Sjávarset við strendur og á landgrunni: Sjávarkambur (malarkambur, fjörukambur), malarrif, eiði, grandi, marbakki, óseyrar.

Kornastærð: Allar kornastærðir koma fyrir.

Aðgreining og lagskipting korna: Korn eru vel aðgreind og lagskipt. Dreifingin fer einkum eftir ölduróti og straumþunga. Lagskipting er yfirleitt víxllaga við strendur þar sem ölduróts gætir en skálaga og lárétt lagskipting er á meira dýpi.

Áferð korna: Kornin eru vel slípuð og lábarin sem kallað er.

Steindir: Þau korn sem lengi hafa velkst í ölduróti hafa oft misst veikustu steindirnar, sbr. ársetið. Víða við strendur erlendis er því fínkorna kvarssandur úr kornum sem borist hafa langt að.