Sjór þekur um 71% af yfirborði jarðar en 29% teljast til þurrlendis sem nokkuð er misdreift á jarðkúlunni. Aðeins 20% suðurhvelsins er þurrlendi á móti 40% á norðurhveli. Venja er að greina hafsvæðin gróflega í grunnsævi og djúpsævi. Grunnsævi er yfir landgrunnssvæðum meginlanda sem eru mjög misbreið og eru aðeins um 8% af flatarmáli hafsbotnsins. Landgrunnssvæðin ná út að landgrunnsbrúninni sem yfirleitt er á 100 til 600 m dýpi en þar dýpkar snögglega og landgrunnshlíðar með um 4° halla taka við og ná niður á um 3000 m dýpi. Á landgrunnshlíðarnar má líta sem ystu mörk meginlanda því þar undir mætast úthafs- og meginlandsskorpan. Samanlagt þekja landgrunn og landgrunnshlíðar um 16% af flatarmáli hafsbotnsins. Neðan landgrunnshlíðanna taka við aflíðandi hlíðardrög, landgrunnsræturnar. Þær teygja sig út á sléttur djúpsjávarbotnsins á um 4000 til 6000 m dýpi og teljast til hans. |T|


Á sjávarbotninum er margbreytilegt landslag. Þar skerast djúp gljúfur inn í landgrunnshlíðarnar og neðansjávarfjöll og neðansjávarhryggir rísa um 1000 - 3000 m upp frá sléttum djúpsjávarbotnsins. Hryggirnir mynda samanlagt um 84.000 km langa fjallgarða á plötuskilum. Hyldjúpar djúpsjávarrennur eða djúpálar eru á plötumótum en þar verður hafdýpi mest. Í Maríana-rennunni SV af eyjunni Guam í vestanverðu Kyrrahafi hefur mælst mest hafdýpi, um 11.000 m.