Rofabörð

Hvarvetna á gosbeltum landsins eru ummerki vindrofs sláandi. Með gróðureyðingu á einum stað hefst vindrof sem veldur jarðvegsþykknun á grónu landi í næsta nágrenni. Þessar breytingar sjást best í mýrum. Við jarðvegsþykknunina lækkar grunnvatnsborðið miðað við yfirborð jarðvegsins svo mjög að hann breytist úr mýrajarðvegi í móajarðveg og gróðursamfélagið breytist um leið. Trjá og runnagróður verður kyrkingslegur og gisinn en við það minnkar mótstaða gróðurþekjunnar gegn hvers konar áföllum af náttúrunnar eða manna völdum. Vatnsrof á skóglausu landi eykst stórlega þegar skógarlimið er ekki lengur til hlífðar, því að regnið fellur þá beint á viðkvæman grassvörðinn og ár og lækir vaxa mun hraðar en áður um leið og rofmáttur þeirra eykst að sama skapi. Þar sem göt koma á gróðurþekjuna skolast gróðurmoldin burt og sár með gróðurvana mold, sem er þétt í sér og án samkornunar, situr eftir. Vindrof nær sér síðan auðveldlega upp í þeim sárum sem opnast því fokjarðvegurinn er fljótur að þorna vegna lágrar grunnvatnsstöðu og þess hversu grófkorna hann er og ófær um að binda vatnið. Sárin stækka og brátt eru aðeins stakar gróðurtorfur eftir sem þykkna hratt og þá einkum áveðurs. Slíkar torfur kallast rofabörð.


Til þess að stöðva þennan vítahring uppblásturs verður að sá í sárin og hlífa landinu við beit og slæmri umgengni. Sé hins vegar ekkert að gert heldur vindrofið áfram uns komið er niður í urð eða niður að grunnvatnsborði mýrar.



Sjá INDEXL → landmótun → vindurinn.