Hreyfingar jökulíss

Nýmyndaður jökulís er úr ótal kristöllum sem hrúgast hafa saman í algerri óreiðu og er hann því að innri gerð ekki ósvipaður gosbergi. Þegar ísinn fer að síga undan eigin þunga vaxa kristallarnir enn á kostnað hinna minni og raða sér upp þannig að skriðfletir þeirra verða samsíða skriðflötum annarra kristalla, ekki ósvipað og margir spilastokkar liggi hlið við hlið. Þannig verður jökulísinn þjáll og eftirgefanlegur og sígur fram undan eigin þunga.


Í þíðjöklum flýtir vatn mjög fyrir hreyfingum jökulsins og þá einkum þar sem hann rennur eftir undirlaginu. Mælingar, sem gerðar hafa verið með borunum djúpt í jökulís þíðjökla, sýna að það skrið sem kemur fram á yfirborði er mest við botninn en aðeins að litlu leyti eftir skriðflötum kristallanna. Mestur hluti skriðsins verður þegar jökullinn rennur á undirlaginu.


Snjór sem stöðugt hleðst á safnsvæði hájökulsins fergir jökulinn þannig að hann fer að síga fram undan eigin þunga til leysingasvæðanna. Rennslið á hájöklinum er skáhallt niður á við í átt til leysingasvæðanna þar sem það leitar skáhallt upp aftur vegna leysinga. Landslag veldur því að afrennsli jöklanna leitar í vissa farvegi og myndar skriðjökla sem renna oft niður á láglendi eða jafnvel í sjó fram. Skriðhraðinn er mismunandi eftir skriðjöklum og fer yfirleitt eftir því hversu stórt safnsvæði er að baki þeirra. Mestur er skriðhraðinn í skriðjökli við jafnvægislínuna og á miðjum jökulstraumnum við yfirborðið en við botninn og til hliðanna er mótstaðan mest og þar skríður ísinn hægast.  Skriðhraði jökla er mismunandi frá fáeinum cm til nokkurra metra á dag. Hér á landi hefur mælst rúmlega 1 m skrið á sólarhring í Skeiðarárjökli   þar sem hann er mjóstur. Skriðjöklar á Suðurskautslandinu skríða aðeins um 15 cm á dag en þar hafa fundist afmarkaðir jökulstraumar í breiðum dölum við botninn þar sem hraðinn er allt að tífaldur miðað við ísinn umhverfis.