Móajarðvegur

Móajarðvegur er að mestu leyti myndaður vegna áfoks og öskufalls og dýpt hans er yfirleitt háð áfoki frá næsta nágrenni. Hann er fremur ríkur af lífrænum efnum, nokkuð grófkorna en samt líkur leir eða leðju viðkomu. Við náttúrulegar aðstæður er móajarðvegurinn þýfður og með samfelldri gróðurþekju.


Móajarðvegur getur ekki talist frjósamur og honum hættir mjög við uppblæstri verði gróðurþekjan og frumstæð samkornun hans fyrir minnstu áföllum. Hann er ýmist á hraunum eða sendnum, malarbornum eða grýttum grunni.


Móajarðvegur er að meðaltali dýpstur á austurhluta Suðurlands og Suðausturlandi, um 150 cm, næstdýpstur er hann á Austurlandi um 85 cm, álíka á Suðvesturlandi og Norðurlandi um 70 cm, en grynnstur er móajarðvegurinn á Vestur- og Norðvesturlandi um 55 cm.



Sjá Efnisyfirlit → Jarðfræði Íslands → Laus jarđlög