Frostveðrun

Vatn hefur þann sérstæða eiginleika að þenjast út um 9% þegar það frýs. Frostþenslu gætir mest þar sem hitastig er á bilinu frá - 5 til - 22°C. Við - 5°C er þrýstingur íssins um 600 kg/cm2 og verður mestur um 2200 kg/cm2 við - 22°C. Við lægra hitastig breytir ísinn um kristalgerð og dregst þá saman eins og önnur efni gera við lækkandi hitastig. Frostveðrunar gætir mest í röku holóttu bergi og veðráttu þar sem frost og þíða skiptast oft á eins og hér á landi. Áhrifin eru mest í sprungnu og holóttu bergi þar sem holrýmin fyllast af vatni. Myndun leirsteinda vegna efnaveðrunar veldur þrýstingsbreytingu og spennu í berginu. Þetta gerist einkum nálægt yfirborði bergs og meðfram straumrákum í straumflögóttu bergi og flýtir mjög fyrir frostveðrun. Verður þetta til þess að veðrunarhúð flagnar af bergi og straumflögótt berg flagnar í hellur.