Myndun flekaskila

Flekaskilin myndast í fyrstu vegna togkrafta í jarðskorpunni. Við það myndast sigdalur með siggengjum beggja vegna og flekana byrjar að reka hvorn frá öðrum. Reyndar er Rauðahafið í slíkum nýmynduðum sigdal og það er svo ungt að enn sem komið er liggur virkur rekhryggurinn að hluta undir setlögum. ◊.


Í fyrstu er talið að sigdalur Rauðahafsins hafi litið út líkt og sigdalurinn í Austur-Afríku enda mætast þeir í Bab el Mandem-sundi í svokölluðum þrípunkti. ◊. ◊.    Fyrst braust mikið basískt gosberg upp á yfirborðið og er hraunlagastaflinn talinn hafa myndað hásléttu sem náði 2,5 km hæð y.s. Við togið rifnaði skorpan þannig að mikill hæðarmunur varð á botni sigdalsins og sléttunni. Áður en sjór flæddi inn í dalinn barst set út á dalbotninn frá nálægum hlíðum sigdalsins. Þetta er molabergsset sem nú er alsett basaltgöngum og sillum sem mynduðust þegar kvikan tróð sér upp um siggengissprungurnar. Eftir því sem rekið ágerðist og dalurinn víkkaði seig botninn og sjór flæddi inn. Í fyrstu var nánast um lón og vötn að ræða fremur en haf. Uppgufunin var mikil og gufunarset, eins og salt, myndaðist ofan á landræna molabergssetinu. Að lokum og eftir því sem rekið hélt áfram dýpkaði hafið og sjávarset myndaðist. ◊. Þannig eru aðstæður í Rauðahafinu nú. Haldi rekið áfram mun Rauðahafið breikka líkt og Atlantshafið gerði.