Möttullinn

Utan kjarnans tekur möttull jarðar við og nær hann út að jarðskorpunni. Hann er gerður úr föstu eðlisþungu efni og einkum úr þeim frumefnum sem mynda frumsteindirnar ólívín og pýroxen (Fe, Mg, Si og O). Neðst í möttlinum á 350 til 2883 km dýpi er harðasti hluti hans, miðhvolfið (mesosferan). Þar eykst hraði jarðskjálftabylgna stöðugt uns hann nær hámarki við kjarnann á 2883 km dýpi. Á þeim mörkum hægja P-bylgjurnar verulega á sér eða úr 13,6 km/sek niður í 8,1 km/sek og S-bylgjurnar deyja út . Hegðun S-bylgnanna bendir til þess að þær mæti þar fljótandi efni eins og áður greinir.


Ofarlega í möttlinum, á 100 til 350 km dýpi undir meginlöndunum en á um 20 km dýpi undir úthöfunum, er svonefnt deighvolf eða lághraðalag (asthenosfera). Þar hægja jarðskjálftabylgjurnar nokkuð á sér og bendir það til þess að bergið í þessu lagi sé nálægt bræðslumarki og því líklega hlutbráðið og seigfljótandi. Á deighvolfinu (lághraðalaginu) flýtur berghvolfið (stinnhvolfið, lithosferan).