Kvikuþró verður til undir megineldstöðvum, ofarlega í jarðskorpunni, þegar kvikan stígur upp frá möttli jarðar og ryðst inn á milli jarðlaga. ◊ Talið er að talsverður hluti þess bergs, sem kvikan þrengir sér inn í, molni upp, sökkvi í kvikuna, bráðni og blandist þannig aðkomukvikunni. Finnist slík brot í storkunni eru þau kölluð hnyðlingar. ◊ Kvikuþrær eru undir íslenskum megineldstöðvum og sjá þeim fyrir gosefnum. ◊ Þegar eldstöðina rekur út af rekhryggnum kólnar kvikan í þrónni og storknar sem djúpberg. Í blágrýtismynduninni eru þekkt stór innskot sem líklega eru fornar kvikuþrær í tengslum við kulnaðar megineldstöðvar. Í mörgum tilfellum hefur rofið náð að má yfirborðsbergið ofan af þeim. Slíkar myndanir er að finna í Vestrahorni, ◊ Slaufrudal og Eystrahorni í Lóni.