Hraunkúlur. Þegar kvikuflygsur þeytast hátt í loft upp snúast þær jafnframt um sjálfar sig þannig að þær verða kúlulaga. Á fluginu storknar yfirborð þeirra en kjarninn helst oft bráðinn, einkum hjá þeim stærri, uns þær lenda og fletjast út eða splundrast. Slíkar hraunkúlur eru ávallt með glerjuðu yfirborði en blöðróttar að innan og oft mótar fyrir stuðlun út frá miðju. Þessar hraunkúlur og brot úr þeim má mjög oft sjá í rofnu móbergi t.d. í Sveifluhálsi og í Stakkholtsgjá norðan Eyjafjallajökuls.