Rýólít [rhyolite] er súrt dulkornótt gosberg. Hér á landi er það einnig nefnt líparít og er nafnið komið frá Liparieyjum norðan Sikileyjar. Rýólít og skylt berg finnst víða í megineldstöðvum hér á landi og er það áberandi vegna ljósgula litarins en hann er að vísu tilkominn vegna ummyndunar. Ferskt rýólít er dökkgrátt á litinn. Sem dæmi um fundarstaði má nefna hraungúlinn Jörund við Kröflu. ◊ ◊ ◊ ◊
Sjá töflu: |T|
Sjá ennfremur flokkkun USGS á storkubergi: ◊
Hrafntinna [obsidian] er afbrigði af rýólíti og myndast við snögga kælingu á yfirborði rýólíthrauna og innskota. Kælingin er þá svo snögg að kvikan nær ekki að kristallast og storknar þess í stað sem gler. Hrafntinnan er svört á litinn og hefur gljáa og brotfleti sem gler. ◊ Hún finnst í miklu magni t.d. í Hrafntinnuhrygg við Kröflu og í Hrafntinnuhrauni ◊ ◊ vestan Hrafntinnuskers ◊ á Torfajökulssvæðinu. ◊ Em = 2,39 ± 0,02.
Biksteinn. [pitchstone] Sum afbrigði hrafntinnu hafa fitugljáa og eru þau vanalega svört en einnig geta þau verið græn eða móleit á litinn og kallast þá biksteinn. Sé mikið vatn bundið í biksteininum verður hann grár að lit og og kallast þá perlusteinn. ◊
Perlusteinn [perlite] ◊ er líklega myndaður við gos í vatni eða undir jökli. Eins og áður sagði er vatn bundið í honum og þenst hann því út við upphitun og myndar við það glerkennda froðu, líka vikri, sem er margföld að rúmmáli borið saman við hrafntinnu eða bikstein. Þaninn perlusteinn er notaður sem einangrunarefni. Perlusteinn finnst t.d. í Loðmundarfirði, í Prestahnúk ◊ á Kaldadal og í Bláhnúk við Landmannalaugar.
Baggalútar [spherolites] nefnast smákúlur sem myndast í rýólítkviku þegar nálar af feldspati og kvarsi vaxa út frá kristalkími. Þeir eru ýmist stakir eða samvaxnir tveir eða þrír hér og þar í kvikunni. Talið er að þeir myndist við hraða kristöllun kvikunnar. Baggalútar eru yfirleitt frá 0,5 til 3 cm í þvermál en geta þó orðið enn stærri. ◊
Uppruna dasíts og rýólíts er að leita í jarðskorpunni, þ.e. á nokkurra km dýpi. Talið er að það geti annaðhvort myndast við hlutkristöllun á íslandíti í kvikuþróm eða við blöndun á íslandíti og rýólíti.