Gjall og kleprar

Gjall myndast við kvikustrókavirkni í basískum gosum en hún stafar af miklu útstreymi lofttegunda úr kvikunni efst í gosrásinni. Við loftbólumyndunina í kvikunni léttist hún snögglega og hröðun hennar upp á við eykst mjög þannig að kvikan nær að þeyta kvikustrók hátt til lofts. Nái sletturnar að storkna áður en þær falla mynda þær frauðkennt gjall. Séu sletturnar aðeins hálfstorknaðar fletjast þær út og hrúgast upp sem skánir úr kvikuslettum eða kleprahrúgöld. Í svokölluðum blandgosum er um báðar þessar myndanir að ræða og myndast þá gjall- og klepragígar. Vegna hraðrar storknunar er yfirborð gjalls og klepra mjög glerkennt og storkan er blöðrótt. Þessar myndanir fá oft rauðleitan blæ vegna oxunar járnsambanda í storkunni.

Dæmi:

Gjallgígar: Seyðishólar í Grímsnesi, Grábrókargígar í Borgarfirði, Berserkjahraunskúlur á Snæfellsnesi, Vikraborgir í Öskju og allir gervigígar.

Klepragígar: Gígar eldborga, Búrfell ofan Hafnarfjarðar og öll hraundrýli.

Gjall- og klepragígar: Búðaklettur, Lakagígar, Þrengslaborgir.


Til baka í gjósku.