Berggangar eru þunn plötulaga innskot sem oftast liggja lóðréttir í jarðskorpunni og því sem næst hornrétt á eldri lög sem þeir ganga í gegnum. Þykkt þeirra getur verið frá nokkrum millimetrum upp í nokkra tugi metra, og lengd þeirra getur skipt tugum km. Einnig eru til gangar sem eru margfaldir og þrengja sér þannig hver inn í annan. Flestir gangar eru storknaðar aðfærsluæðar kulnaðra eldstöðva. Þeir myndast þegar kvikan þrengir sér gegnum sprungur upp til yfirborðsins. Einnig er líklegt að þeir myndist þegar kvikan þrengir sér inn í sprungusveima sem gliðna við jarðskorpuhreyfingar á úthafshryggjum.


Á svipaðan hátt og sprungur mynda sveima í eldstöðvakerfum virku gosbeltanna nú sjást gangasveimar í blágrýtismynduninni. Þeir eru víða áberandi í landslaginu þar sem rof hefur grafið dali og firði. Gangarnir standa þá vanalega upp úr grannberginu því það er oftast veikara en gangbergið. Gangarnir eru ávallt þverstuðlaðir og líkjast þá helst risavöxnum hleðslum í bröttum hömrum fjalla og nefnast tröllahlöð.  Sem dæmi um bergganga má nefna Tröllkonustíg í Fljótsdal  og Reiðskörð á Barðaströnd. ◊.


Til baka í innskotsmyndanir.