Árekstur Afríkuflekans og Dekan við Evrasíu á nýlífsöld lokaði því sem eftir var af Tethyshafinu og segja má að leifar þess nú séu Miðjarðarhaf, Svartahaf, Kaspíahaf og Aralvatn.
Fyrir 14 - 18 Má rákust Afríka og Evrasía á og mynduðu landbrú þar sem nú er Súez en eftir henni gátu landdýr komist milli þessara meginlanda. Við það missti Tethyshaf tengsl sín við Indlands- og Kyrrahafssvæðið í austri.
Á ármíósen ◊. greindist Austur-Tethyshaf í tvennt, norður- og suðurgrein og við myndun Dínar- og Hellenafjalla á Balkanskaga og Tárusfjalla í Tyrklandi urðu þessar greinar að aðskildum innhöfum. Syðra innhafið varð síðan að Miðjarðarhafi og það nyrðra að Para-Tethyshafi sem var ísalt frá miðmíósen til loka míósen. ◊
Í lok míósen urðu miklar breytingar bæði á Miðjarðarhafi og Para-Tethyshafi. Til vitnis um það eru súlulaga myndanir í botnseti Miðjarðarhafsins sem komu í ljós við rannsóknir 1961. Þessar myndanir líktust mjög saltstólpum í jarðlögum frá júratímabilinu á botni Mexíkóflóa. Væru þetta saltstólpar þurfti að gera ráð fyrir því að þeir hefðu myndast við uppgufun Miðjarðarhafsins. Árið 1970 var, með borunum, sýnt fram á að þetta væru í raun saltsólpar í setinu og aldursgreining borkjarnanna benti til að þeir hefðu myndast á síðmíósen. Einnig sást möl sem benti til setmyndunar á grunnu vatni eða þurru landi. Tilgátan um að Miðjarðarhaf hefði breyst í nær uppþornað saltvatn var svo staðfest þegar halít (steinsalt) fannst austantil í Miðjarðarhafsbotninum. Halít hefur mikla leysni og fellur út síðast salta er það vanalega að finna á botni sem samsvarar miðju uppþornaðra saltvatna. ◊
Frekari sönnur fengust fyrir því að Miðjarðarhafið hafði þornað upp þegar í ljós komu djúpir dalir fylltir seti frá plíósen undir áreyrum og óshólmum Rónar, Pó og Nílar. ◊ Þessi fljót féllu þá þegar í Miðjarðarhafslægðina á ármíósen og þær grófu sér gljúfur sem dýpkuðu eftir því sem yfirborðs hafsins lækkaði uns botninum var náð. Sovéskir verkfræðingar sem unnu við smíð Aswanstíflunnar fundu risastór gljúfur undir farvegi Nílar þegar þeir voru að leita að fastri undirstöðu fyrir stífluna. Stærð gljúfursins áætluðu þeir álíka og Grand Canyon í Arizona. Seinna hefur komið í ljós að Nílargljúfur sem myndaðist fyrir 5 – 6 Má og nú er fyllt af seti var 10 – 19 km breitt 1.300 km langt og 2500 m djúpt. Það var því fjórum sinnum lengra en Grand Canyon (320 m) í Arizona og 420 m dýpra (GC. 2080 m). ◊. ◊
Greinilegt er að sundið milli Miðjarðarhafs og Atlantshafs lokaðist í lok míósen, e.t.v. vegna lægri sjávarstöðu í Atlantshafi. Við þær aðstæður sem nú ríkja á Miðjarðarhafssvæðinu tæki uppgufun úr Miðjarðarhafslægðinni fleiri þúsund ár. Svo virðist sem ár hafi runnið úr Para-Tethyshafi suður í lægðina áður en það greindist upp í Svartahaf, Kaspíahaf og Aralvatn.
Uppgufun Miðjarðarhafsins mun hafa gerst frá því sundið milli Atlantshafs og Miðjarðarhafs lokast fyrir um 6 milljónum ára. Lægðin fyllist á ný fyrir 5 milljónum ára en þessu til vitnis eru 5 Má gamlir smásæir steingervingar djúpsjávarlífvera sem finnast ofan á saltinu (evaporitinu). Þessi tími þegar hafið var að gufa upp er oft kallaður Messína-stigið eftir jarðlögum á Ítalíu frá þessum tíma.
Sundið milli Atlantshafs og Miðjarðarhafs virðist hafa opnast snögglega og líklega hefur sjórinn fallið inn með miklum látum og myndað risavaxinn foss sem vart á sinn líka á jarðríki nú.
Stórir hlutar Para-Tethys-hafs þornuðu upp og steingervingar sýna að Svartahafið var án samgangs við Miðjarðarhaf og að þar hafi verið ferskvatn þar til fyrir skömmu er það varð aftur ísalt einu sinni enn vegna rofs þar sem nú er Bosporussund.
Austar lokaðist Tethys-haf á míósen þegar Indlandsskagi rakst á Evrasíuplötuna. Þar hefur framburður úr Himalajafjöllum grafið steingervinga spendýra. Þessi lög eru þekkt sem Siwalik-lögin í Pakistan og á Indlandi og eru steingervingar þar til vitnis um fánuna á þessum slóðum frá því fyrir 11 - 1 milljón árum. Stórárnar í Suður-Asíu og Suðaustur-Asíu sem eiga upptök sín í Himalajafjöllum og falla til suðurs mynduðust á míósen. Vegna mikillar úrkomu í monsúnrigningunum bera Indus, Ganges, Brahmaputra og fljót Indókína mikið magn af seti á haf út ár hvert.
Atlantshaf tengdist Kyrrahafi um Karíbahaf á ár-krít en á þeim tíma voru Stóru-Antillaeyjar eða Kúba, Jamaica, Hispaniola og Puerto Rico eiginlega syðsti hluti Kordillerafjalla Norður-Ameríku sem voru að myndast á plötumótunum. Á plíósen (fyrir ≈ 3 Má ára) skildi Panamaeiðið Kyrrahaf og Karíbahaf að. Við það opnaðist landbrú milli N-Ameríku og Suður-Ameríku. ◊
Með landbrúnni opnaðis leiðin milli Norður- og Suður-Ameríku og lögðu fleiri dýrategundir land undir fót suður á bóginn en öfugt. Þeirra á meðal voru kameldýr, svín, hjartardýr, fílar, tapírar, nashyrningar [rhino], rottur, skunkar, íkornar, kanínur, birnir, hundar, þvottabirnir [raccoon] og kattardýr af ýmsum tegundum.