Himalajafjöllin


Himalajafjöll eru þó nokkru yngri en Alparnir enda mynduð að mestu á nýja-tímabilinu [Neogen]. Þau ná einnig yfir mun stærra svæði en Alparnir. Meðal annars vegna ungs aldurs eru Himalajafjöll hæsti fjallgarður jarðar. Hlíðarnar rísa snarbrattar upp frá Gangessléttunni og enda í hæsta tindi jarðar á Everestfjalli sem rís í 8.848 m hæð yfir sjávarmál. Tíbethásléttan norðan fjallgarðsins liggur meira að segja í meira en 5.000 m meðalhæð, hærra en hæstu tindar Evrópu og Norður-Ameríku.


Líkt og Alparnir eiga Himalajafjöll uppruna sinn að rekja til þess er Gondvanaland byrjaði að liðast í sundur. Dekanskagi sem liggur suður af Himalajafjallgarðinum var eitt sinn hluti Gondvanalands. Seint á miðlífsöld rak þetta brot Gondvanalands norður. Dekanskagi var þá eins konar eyja úr meginlandsskorpu á Ástralíuflekanum. Árekstur Dekanskaga við Evrasíu myndaði fellingahreyfingu Himalaja. Hvenær þessi árekstur átti sér stað er ekki að fullu ljóst en það má e.t.v. ráða af steingervingaannálum á skaganum.


Dekanskagi var einangruð ey þegar tími spendýra gekk í garð fyrir um 65 Má Nýjar dýrategundir sem þróuðust á meginlandi Evrasíu komust ekki út á Dekanskaga fyrr en hann lagðist að Evrasíu. Af steingervingaannáli Dekanskaga má ráða að fyrstu spendýr nýlífsaldar hafi komið þangað fyrir um 45 Má.


Fátt bendir til þess að fellingafjöll hafi byrjað að hlaðast upp á eósen-tímanum. Þá lá Indlandshafið yfirhluta Dekan-meginlandskjarnanans og þykk og víðáttumikil kalksteinslög mynduðust. Gróft set sem barst frá fjalllendi hlóðst fyrst ofan á kalksteinslögin á síðmíósen. Svo virðist sem fellingahreyfingin hafi þó hafist fyrir þennan tíma. Af setlögum á botni Indlandshafs má ennfremur ráða í upphaf fellingahreyfingarinnar. Elstu eðjustraumar sem sem bárust frá óshólmum Ganges og Indus eru frá miðmíósen. Árnar geta varla verið eldri enda urðu þær til eftir að Himalajafjöllin byrjuðu að rísa, líklega fyrir 20 Má.


Hvað gerðist á þeim 25 Má frá því fyrstu spendýr komu til Dekan-meginlandskjarnans (á miðeósen) og þar til fellingahreyfingin hófst (á míósen) er óljóst. Líkleg er sú skýring að NA-horn Dekanskagans hafi rekist á meginlandið fyrir 45 Má og þá hafi dýrin komist yfir. Á sama tíma hægði á rekinu til norðurs, e.t.v. vegna árekstursins við Indókína en öll norðurströnd skagans lagðist ekki að Evrasíu fyrr en fyrir um 20 Má. Raunar hefur ris Himalajafjalla að mestu gerst á síðustu 5 Má.


Á myndum sést hvernig Himalajafjöllin mynduðust í stórum dráttum. Dekanskagi sem flaut á Ástralíuflekanum nálgaðist Evrasíu þegar flekinn rann undir Evrasíu, nánar tiltekið Tíbet. Þegar Dekan lagðist að ströndinni gat léttur meginlandsflekinn ekki sokkið og um leið hætti eldvirkni við djúpálinn. Ástralíuflekinn hélt áfram að þrýsta á Evrasíuflekann og fyrir um 20 Má byrjuðu flekarnir að skarast þegar Dekanskagi smeygði sér undir Tíbet.


Set sem myndast hafði landmegin við Eyjabogann þrýstist upp við samskeytin ásamt ormgrýti. Þá gerðist annar örlagaríkur atburður. Suðurhluti Dekan brotnaði frá norðurhluta skagans og þrýsti sér undir norðurhlutann við risavaxið samgengi sem er a.m.k. 100 km langt og kallast Aðal-mið-samgengið. Þetta misgeni sést víða í Himalajafjöllum þar sem djúpir dalir skarast niður að því. Hreyfingar á þessu misgengi hættu fyrir u.þ.b 10 Má og nýtt misgengi, „aðal-markalínu“-misgengið myndaðist sunnar og fyrir neðan það fyrrnefnda. Hreyfing á þessu samgengi stendur enn. Afleiðing þessara tveggja samgengja varð sú að jarðskorpan þykknaði mjög þegar Dekan rann undir flekabrot sem brotnað höfðu af honum.


Því hefur verið haldið fram að eftir því sem Dekan þrýstir á Evrasíu ýtist þetta mikla meginland til austurs. Jarðskjálftar eru því tíðir í Himalajafjöllum.