Harz-fellingin

Einnig nefnd Varistíska fellingahreyfingin.


Á kolatímabilinu rak norðurströnd Gondvanalands, þar sem Atlasfjöll í Norðvestur-Afríku eru nú, að Norður-Ameríku. Við þetta lokaðist vestanvert Tethyshaf en austurhlutinn varð að stórum flóa sem víkkaði frá Íberíuskaga til austurs. Við áreksturinn kýttust setlögin saman í fellingar og mynduðu fjallgarða í suðri frá Appalachianfjöllum Norður-Ameríku ◊. og Atlasfjöllum Afríku norður eftir Íberíuskaga (Pýreneaskaganum), Bretangskaga og um Belgíu til Harz í Þýsklandi. Þessi fellingahreyfing er í Evrópu kennd við Harzfjöll (oft einnig kölluð Variscan-fellingin) en í Norður-Ameríku kallast hún Allegheny-fellingahreyfingin — þriðji hluti myndunar Applachian-fjalla. Meginlandið sem myndaðist er löndin kýttust saman kallast Pangea. Harz-fellingin er talin hafa staðið frá því fyrir 360 til 290 Má. ◊.


Úralfjöllin eru 3.500 km langur fjallgarður sem nær frá Aralvatni til Novaya Zemlya. Syðst er fjallgarðurinn um 500 km á breidd en nyrst aðeins um 100 til 150 km. Á meðan á fellingahreyfingunni stóð lokaðist Úralhaf á milli Lárasíu og Síberíu og Úralfjöll mynduðust. Vestari flekinn sökk undir þann eystri en við það ýttist sjávarset og ormgrýti upp á vestari flekann. Hreyfingunni lauk á perm og ártrías fyrir um 245 - 208 Má.


Fyrir um 200 Má byrjar svo Pangea að liðast í sundur. Í fyrstu rak Norður-Ameríku frá Suður-Ameríku þannig að flói gekk inn í vesturströnd Pangeu. Við það snérist Afríka rangsælis um Íberíuskagann þannig að hafsbotn Tethyflóans, austan skagans, kýttist saman milli Afríku og Evrasíu. Á meðan þessu fór fram opnaðist Suður-Atlantshafið og Gondvanaland brotnaði upp í Suður-Ameríku, Afríku, Suðurheimskautslandið og Dekanskaga (Indland). Dekanskaga rak síðan hratt til norðurs þar sem hann rakst á meginland Asíu og myndaði Himalajafjöll.



Yfirlitsmynd