Grenville fellingahreyfingin

Grenville-fellingahreyfingin er mynduð fyrir 1.200 – 1.000 Má og undir lok hennar myndaðist stórmeginlandið Rodinia. Jarðmyndanir úr þessari fellingamyndun er að finna frá Grenville í Suður-Karólínu allt norður til Labradorskaga. Einnig er talið að jarðmyndanir henni tengdar sé að finna á Suðurheimskautslandinu, Indlandsskaga og jafnvel í vestanverðri Ástralíu. Myndun þeirra hafði í för með sér árekstur við annan stóran meginlandskjarna sem líklega hefur verið Gondvanaland og talið er að myndast hafi á svipuðum tíma eða á miðri frumlífsöldinni. Þarna hófst svo aftur gliðnun 200 Má seinna eða fyrir um 800 Má. Í fyrstu mynduðust aðeins mjó sund við gliðnunina sem síðar breikkuðu og urðu að stóru hafi, Panthalassic hafi — fyrirrennara Kyrrahafsins.


Ljóst er að gliðnun fór af stað í Lárentíu miðri á tímabilinu frá 0,9 – 1,5 Gá. Miklar lægðir mynduðust á meginlandinu frá norðanverðu Kanada suður til Arizona og fylltust þær af setlögum sem fara þykknandi til vesturs og ná þar allt að 16 km þykkt. Svo er að sjá sem miklir möttulstrókar hafi farið af stað undir meginlandinu því að mikil gangakerfi og gosberg er að finna vestan við vötnin miklu í Bandaríkjunum og norður eftir Kanada og eru þessar myndanir uþb. 1.100 Má gamlar.


Þó að gliðnum Lárentíu hafi ekki náð fram að ganga fór gliðnun af stað við vesturströnd hennar og meginlandskjarnar Ástralíu og Suðurskautslandsins rifnuðu frá (1,0 - 0,6 Gá) og mynduðu etv. austurhluta Gondvanalands. Stórmeginlandið Rodinia hafði liðast í sundur fyrir 800 – 700 Má og við það myndaðist mikið haf vestur af Lárentíu Panthalassic-haf, sem áður var nefnt.


Kjarna Ástralíu og Suðurskautslandsins rak líklega uns þeir að lokum rákust á meginlandskjarna Afríku sem þá var að myndast. Hvort stórmeginlandið Pannotía hafi í raun myndast á þessum tíma er óljóst. Ef svo hefur veri brotnuðu Lárentía, Baltika og Síbería frá þessu stórmeginlandi fyrir uþb. 550 Má. og Japetushaf varð til — forveri Atlantshafsins.


Ljóst virðist þó vera að marga smá kjarna hafi rekið saman á tímabilinu fyrir 700 – 500 Má og þeir myndað núverandi meginlandskjarna Afríku.


Við vitum að flest meginlönd jarðar lágu þétt saman á þessum tíma og að víða var langt til stranda úthafa. Það hefur líklega valdið kólnun og ísöld sem gekk yfir jörðina í lok frumlífsaldar — Varangian-ísöldin.


Afstaða meginlanda



Sjá yfirlitssíðu fellingahreyfinga.