Þó svo að útbreiðsla stöðuvatna hafi ætíð verið lítill hluti af yfirborði jarðar hefur vatnaset varðveist í mun fleiri tilfellum en jarðvegur.
Vatnaset er ávallt lagskipt ◊ og það er yfirleitt grófara nálægt bökkunum en í miðju vatnsins. Öldur ná einnig sjaldan að verða háar á stöðuvötnum og áhrifa þeirra gætir því aðeins á grynningum við strendurnar.
Steingervingar eru mikilvægir við greiningu vatnasets og séu þeir af sjávardýrum er varla um vatnaset að ræða. Botndýr sem grafa sig í botnlögin eru yfirleitt fá í stöðuvötnum og því er setið oftast mjög vel lagskipt og aðgreint. Vatnaset myndast líka oftast í tengslum við annað landrænt set eins og t.d. ármöl.