Þjóðverjinn Abraham Gottlob Werner (1750 - 1817). ◊. Hann var kennari við Freiberg náma-akademíuna í Saxlandi og gerði hann skólann að miðstöð jarðfræðirannsókna. Werner lagði fyrst og fremst stund á bergfræði en verður þó líklega lengst minnst fyrir túlkun sína á jarðsögunni. Grundvallaratriðið í þeirri túlkun var að allt berg í jarðskorpunni hefði myndast við að set féll til botns í miklu hafi sem huldi alla jörðina. Nú vitum við að set hefur oft á tíðum myndast í vatni en fjöldi jarðlaga myndast ofan sjávar eins og til dæmis íslensku hraunin sem mynda mestan hluta af jarðlagastafla Íslands. Vegna þessara kenninga sinna um að rekja mætti uppruna allra jarðlaga til myndunar í hafinu voru Werner og skoðanabræður hans kallaðir neptúnistar eftir Neptúnusi sjávarguði Rómverja.
Í kenningum sínum gerði Werner ráð fyrir því að hafið mikla sem átti að umlykja jörðina í árdaga hefði verið heitt og mettað öllum þeim efnum sem til þurfti til að mynda bergtegundirnar sem hann flokkaði elstar. Hann kallaði þetta berg frumberg eða Urgebirge en stærstur hluti þessara bergtegunda myndi nú flokkast undir storkuberg og myndbreytt berg.
Seinna stig samkvæmt kenningum Werners átti að hafa myndast þegar frumhafið tók að kólna og breyttist smám saman að efnasetningu í það sem við þekkjum nú. Þá áttu vel hörðnuð setlög með steingervingum sem lágu ofan á Urgebirge að hafa myndast. Þetta kallaði hann setlög umbreytinga sem mynduðust þegar lífsskilyrði á yfirborði jarðar voru að breytast úr ólífvænlegu í lífvænlegt ástand. Steingervingarnir áttu að sýna fram á að lífverur gátu þrifist á myndunartíma bergsins. Nú myndu þessi setlög vera flokkuð til frumlífsaldar.
Werner tók eftir því að yfir þessi setlög mynduð á breytingaskeiði jarðar lögðust sandsteinslög, shale, kolalög, mjög steingervingaríkur kalksteinn og einstaka lög úr svörtu bergi sem síðan reyndist vera basalt hraunlög. Öll þessi lög flokkaði Werner sem Flötzgebirge. Fyrir efstu og yngstu lögin í setlagastaflanum notaði hann hugtakið Alluvium.
Þótt kenningum Werners væri vel tekið í fyrstu leið ekki á löngu áður en fram kom gagnrýni sem þær ekki stóðust. Werner tókst ekki að færa rök fyrir tilvist þess mikla hafs sem hann taldi hafa þakið allt yfirborð jarðar í upphafi. Enn síður tókst honum að útskýra myndun basalt hraunlaganna í Flötzgebirge sem átt höfðu að myndast á sama hátt og kalksteinn og shale. Það var hins vegar Frakkinn J. F. D'Aubisson de Voisins sem tókst að færa rök fyrir því að um gosberg væri að ræða. Jarðfræðingar sem aðhylltust þær kenningar voru kallaðir plútonistar eftir Plúton, guði undirheima hjá Rómverjum. Skotinn James Hutton var þeirra á meðal og sýndi hann fram á að bergkvika í iðrum jarðar gæti þrengt sér inn í glufur og sprungur í setlögum og myndað innskot.