snúningsbor: [Rotary Rig] eru einkum notaðir þegar bora skal djúpar holur eftir heitu vatni, jarðgufu eða olíu.


Tilsýndar ber mest á bormastrinu [derrik] og borpallinum og meðfylgjandi vélbúnaði    en niðri í sjálfri holunni er holur borstrengur með borkrónu á neðri endanum.  Borstrengurinn er samsettur úr 10 m löngum borstöngum   og er nýrri stöng bætt við á borpallinum eftir því sem holan dýpkar. Dýpi holu sem boruð er frá borpalli ræðst af hámarksafli togvindunnar sem notuð við borunina því að hún þarf að geta lyft borstrengnum sem getur verið allt að 100 tonn í 3.000 m djúpri holu.


Á snúningsborunum er borstrengurinn festur efst í holu drifskaftinu [kelly] sem runnið getur niður í gegnum drifborðið eftir því sem borstrengurinn sígur niður.   Á nýrri snúningsborum er snúningsdrifið uppi í mastrinu og ofan á borstrengnum. Slíkir borar eru kallaðir toppdrifnir.


Efsti hluti holunnar er víðastur og þar er komið fyrir fóðringu sem steypt er föst og er holulokinn festur á hana. Neðar þrengist holan og fóðringarnar og neðst þar sem vatnið eða gufan streymir inn eru götuð eða raufuð fóðurrör notuð.


Neðst á borstrengnum er borkrónan og getur hún verið af ýmsum gerðum. Á stórum hringborum sem bora eiga fyrir heitu vatni, gufu eða olíu er algengast að nota tannhjólakrónu með karbíthöglum.  Á henni hvílir borstrengurinn með 0,4 til 0,6 tonna þrýstingi á hvern cm í þvermáli borkrónunnar. Einnig eru notaðir lofthamrar með þar til gerðum krónum neðst á borstrengnum.


Borsvarf frá borkrónunni er flutt til yfirborðsins með skolvökva sem dælt er niður í holuna þannig að hann myndi hringrás. Auk þess að flytja svarfið upp kælir skolvökvinn borkrónuna og bergið sem borað er í. Borleðja er notuð þegar hætta er á að hrynji úr holuveggjunum því að hún er eðlisþyngri en vatn. Stundum er lofti blandað í skolvökvann til að létta hann og myndast þá eins konar löður.




MYNDSKEIÐ


Sjá jarðbor og jarðboranir.



Sjá INDEXJ → jarðbor.