Segulmælingar hafsbotnsins

Í síðari heimsstyrjöldinni var leitað að kafbátum með afar næmum segulmælum sem flogið var með yfir hafflötinn og skynjuðu þeir segulsvið bátanna þótt þeir væru í kafi. Haffræðingar nýttu sér síðar þessa sömu tækni og útbjuggu mæla sem dregnir voru um höfin til að kanna segulsvið hafsbotnsins. Þessir mælar mældu bæði heildarsegulsviðið og staðbundin frávik frá því sem stöfuðu af mismun á segulmagni bergsins á hafsbotni. Berg með núverandi segulstefnu, rétt segulmagnað berg (N), gefur þá jákvætt frávik en öfugt segulmagnað berg (R) gefur aftur á móti neikvætt frávik. Eftir að margar mælingar höfðu verið gerðar um þver og endilöng úthöfin og niðurstöður þeirra færðar inn á kort komu furðuleg fyrirbæri í ljós sem illa gekk að útskýra. Frávikin mynduðu línur sem lágu báðum megin og samsíða endilöngum úthafshryggjunum. Það var svo ekki fyrr en 1963 að sú tilgáta kom fram að þessi frávik stöfuðu af rétt (N) og öfugt segulmögnuðum (R) bergræmum sem myndast höfðu á hryggjunum á fyrri segulskeiðum og síðan rekið út frá þeim á báða vegu. Þetta studdi svokallaða botnskriðskenningu sem gengur út frá því að hafsbotninn reki út frá gliðnandi hryggjunum en um leið þrengir kvika sér upp í gjána sem opnast við gliðnunina, storknar þar og segulmagnast samkvæmt ríkjandi segulsviði. Með aðstoð tímatöflu segulskeiðanna sem fengin er út frá mælingum á landi má síðan bera saman afstæðan aldur hafsbotnsins c næst hryggjunum og berglaga á landi.



◊.