rauðablástur: er vinnsla járns (blástursjárns) úr mýrarrauða í smiðju eða sérstökum ofni; [En: bloomery furnace, De: Rennofen].


Rauðablástur fer þannig fram, að þurrkuðum mýrarauða er blandað saman við viðarkol sem unnin eru með því að brenna viði í kolagröf þannig að loft komist ekki að. Síðan er kveikt í blöndunni í ofni. Við brunann afoxast járnið úr (vötnuðu) járnoxíði (Fe2O3 + n·H2O) í járnmálm sem er bráðinn og seytlar niður í botn ofnsins og er síðan „hleypt undan“. Eftir verða steindir (efnasambönd) sem ekki bráðnuðu, og nefnast sori eða gjall. Jafna efnahvarfanna er sýnd hér neðan efnisgreinarinnar og af henni sést að öllu máli skiptir hlutfallið milli járnoxíðs og kísils í hráefninu — í jöfnunni er það 2:1, en sé það 1:1 gengur ekkert járn af. Sorinn hér er fayalít (Fe2SiO4).


Efnajafnan um járnbræðslu:

2Fe2O3 + 2C + SiO2=2Fe + 2CO2 + Fe2SiO4


Á árunum á milli 1970 og 1980 voru nokkur sýni af mýrarauða og gjalli (sora) til að reikna út hugsanlegan afrakstur rauðablástursins greind á Raunvísindastofnun Háskólans. Í íslenskum mýrum er mikið um steinefni, öskulög og áfok, sem inniheldur yfir 50% af SiO2, og vafalítið hefur þessi staðreynd spillt fyrir rauðablæstri hér á landi. Þetta hefur þó verið bundið landshlutum einkum þar sem áfok jókst mjög í kjölfar landnáms.


Sjö sýni sem greind voru af mýrarauða af Héraði innihéldu 21-35% SiO2 og 69-75% Fe2O3 (þungahlutföll í þurrkuðu og glæddu sýni). Rauði af Skeiðum innihélt hins vegar 18% kísil og 75% járn. Í gjallsýni (sora) af Austurlandi voru 32% kísill og 36% járn. Samkvæmt því mundi 1 kg af mýrarauða með 23% kísli og 71,4% járni gefa af sér 442 g af járni. Fræðimenn telja að ársnotkun Íslendinga hafi verið um 45 smálestir — sem þá hefði krafist yfir 100 tonna af þurrkuðum mýrarauða, og til þess að vinna þessi 45 tonn þurfti um 25 þúsund tunnur (= 625 tonn) af viðarkolum árlega.




Heimildir: 1 Sigurður Steinþórsson 2000: „Er nógu mikið járn í íslenskum mýrarauða til vinna það með raunhæfum hætti?“. Vísindavefurinn 15.2.2000.