Ólívín er oftast fölgrænt án kleyfni og með glergljáa. Nafnið er dregið af litnum og er talað um að eitthvað sé ólífugrænt. Ólívín er ein af mikilvægustu bergmyndunarsteindum jarðar því að það er mjög algengt í úthafsskorpunni og efstu hlutum möttulsins. Þar af leiðandi er það algeng steind í basísku storkubergi eins og gabbrói og basalti. Í basaltinu er það algengast sem dílar t.d. í Reykjavíkurgrágrýti, Búðahrauni á Snæfellsnesi  og í Búrfellshrauni við Hafnarfjörð.


Sjá |einkenni| ◊.


Efnasamsetning ólívínsins getur verið margbreytileg því að járnjónin (Fe+2) getur hæglega komið í stað Mg+2 í Mg2SiO4. Formúlan er því skrifuð (Mg,Fe)2SiO4 og er þá átt við að járn (Fe+2) geti aðeins komið í stað Mg+2 en ekki hinna jónanna í formúlunni.


Hjá ólívíni eru silíkathyrnurnar stakar og er þeim haldið saman með tengingum frá oxíðjónunum á hornum silíkathyrnanna í Mg+2 eða Fe+2 jónina sem liggur á milli þeirra. Raða silíkathyrnurnar sér því upp eins og reynt er að sýna á mynd: ◊.  Þessi uppröðun veldur því að tengingin er jöfn til allra átta og þess vegna nær enginn kleyfniflötur að myndast.



Sjá ennfremur helstu bergmyndunarsteindir jarðskorpunnar.