kalkþörungar: [coralline algae, read algae] eru rauðþörungar sem mynda hríslótta stoðgrind úr kalki sem er talin 95% af þunga þeirra. Hún er einkum úr kalsíti CaCO3 og magnínkarbónati MgCO3. Kalkþörungarnir, sem oft er ruglað saman við kóralla (og stundum kallaðir kóralþörungar), mynda sérkennileg búsvæði annarra lífvera á grunnsævi, en þetta búsvæði gengur undir nafninu „maerl“ eða „maërl“ á mörgum tungumálum.


Kalkþörungar vaxa víða hér við land og mynda þeir neðansjávarhjalla meðfram ströndum í flóum og fjörðum. Í Arnarfirði eru hjallarnir 6 - 20 m þykkir og þar er þörungategund af ættkvíslinni Lithothamnium [lithos: steinn; thamn: runni] ráðandi. Kalkþörungar vaxa hægt eða 0,4 mm á ári niður á 20 m dýpi og enn hægar á meira dýpi. Ekki er gert ráð fyrir að þeir þrífist neðan 40 m dýpis.


Efst í hjöllunum í Arnarfirði er lifandi lag kalkþörunga talið nokkurra cm þykkt og er líklegt að það hafi myndast á síðustu 100 árum. Neðar í 3 – 20 m þykkum hjöllunum eru stoðgrindur dauðra þörunga sem safnast hafa fyrir frá lokum ísaldar.


Lifandi þörungarnir eru rauðleitir eða bleikir til að nýta bláa geisla sólar sem best en dauðar stoðgrindurnar eru fljótar að bleikjast og minna þá gjarna á kóralla og erlendis þar sem þeim skolar á land eins og td. í Loch Dunvegan á vesturströnd Skotlands austan Ytri- Hebrideseyja er talað um kóralsand. [Maerl - A Rocky Seaweed]



Heimildir:    Kjartan Thors ofl. 2002: Skýrsla um mat á umhverfisáhrifum fyrir Íslenska kalkþörungafélagið ehf.
< http://www.atvest.is/userfiles/file/PDF/skyrslur/umhverfismatsskyrsla.pdf >