jarðfræði: [geology; L.: geo-: jörð; logia: fræði; Dk: geoloogi; De: Geologie] er sú grein náttúruvísinda sem fæst við rannsóknir og túlkun á myndun, gerð og mótun Jarðar. Jarðfræðin greinist í tvo meginþætti. Annar þeirra er almenn jarðfræði sem fjallar einkum um myndun, gerð og mótun jarðskorpunnar af völdum náttúraflanna. Þar er um að ræða bæði innræn öfl eins og eldvirkni, jarðhita og höggun sem eiga upptök sín í iðrum Jarðar og útræn öfl eins og veðrun og rof. Hinn meginþátturinn er saga Jarðar sem rekur myndun jarðlaga í tímaröð og þær breytingar sem orðið hafa á Jörðu og lífkerfi hennar.


Jarðfræðin styðst við ýmsar hjálpargreinar eins og td. jarðeðlisfræði, bergfræði, jarðefnafræði, steingervingafræði, líffræði, haffræði, veðurfræði og stjörnufræði.