grafít: [Gr: γρἀφειν (graphein „að skrifa“); En: graphite] mjúk (H = 1½) svört og gljáandi steind úr hreinu kolefni — eins og demantur. Byggingin er blaðskipt þar sem C-frumeindirnar mynda sex frumeinda (hexagónal) hringi með afar sterkum tengjum. Á milli blaðanna eru veik efnatengi sem gera það að verkum að steindin er mjúk og leiðir vel straum. Grafít finnst í bergi sem orðið hefur fyrir mikilli myndbreytingu. Heitið er dregið af grísku sögninni graphein „að skrifa“.