Rekbeltin

Fyrir um 7 - 16 milljónum ára lá virka rekbeltið um Snæfellsnes og er það því kennt við nesið og kallað Snæfellsnesrekbeltið. Þar sem nú er Hvammsfjörður var hlykkur á því til austurs um þverbrotabelti með skástígum víxlgengjum en síðan lá það norður Skaga austan Húnaflóa.


Á þessu rekbelti hafa verið eldstöðvakerfi líkrar gerðar og þau sem við nú þekkjum með kvikuþróm, megineldstöðvum og gossprungum. Eldkeilurnar gusu blönduðum gosum, en frá sprungum og dyngjum í nágrenninu runnu mikil hraun sem fergðu landið og þrýstu því niður þannig að samhverfa myndaðist um gosbeltið jafnframt því sem landið rak út frá beltinu í báðar áttir. Við landrekið rak virkar megineldstöðvar út af gosbeltinu og þær dóu út og kaffærðust af flæðigosum frá sprungum eða dyngjum tengdum yngri sprungusveimum innar á gosbeltinu.


Fyrir um 7 - 8 milljónum ára varð sú breyting á Snæfellsnesrekbeltinu að syðri leggur þess kulnaði út en nyrðri leggurinn, sá er lá norður Skaga, var virkur enn um sinn eða þar til fyrir 4 milljónum ára. Þá kulnaði eldvirknin nema á þverbeltinu sjálfu sem liggur eftir Snæfellsnesi. Þar er enn eldvirkni sem virðist þó vera að kulna út hægt og hægt enda er þetta svæði orðið innlyksa á Ameríkuflekanum.


Þegar syðri leggur Snæfellsnesrekbeltisins kulnaði út fyrir um 7 milljónum ára færðist eldvirknin um 70 km austar þar sem nú er rekbelti um Reykjanes til Langjökuls og er það virkt enn. Eldvirknin hófst fyrst nyrst en breiddist suður á bóginn með tímanum. Þetta rekbelti sem kalla mætti Reykjanes-Langjökuls-rekbeltið var ekki í beinu framhaldi af Reykjaneshryggnum suður í hafi heldur sveigði af leið og hliðraðist austur eftir Reykjanesskaganum. Það stóðst heldur ekki á við nyrðri legg Snæfellsnes-rekbeltisins sem virkt var enn um sinn og lá norður Skaga heldur tengdist því um þverbelti líku því sem áður lá um Hvammsfjörð og tengdi norður- og suðurlegg Snæfellsnesrekbeltisins.



Sjá næstu síðu um samhverfur — andhverfur.