Nútími á Íslandi

Af þeim 440 háplöntum sem nú lifa í landinu er talið að um helmingurinn hafi lifað jökultímann af í hlíðum jökulskerja og á öðrum jökullausum svæðum. Gróðurinn virðist hafa tekið furðu fljótt við sér þótt þurrlendi væri að mestu urðir og melar án jarðvegs (gróðurmoldar) í fyrstu. Þær plöntur sem fyrstar námu land voru sjálfsagt þær sem við sjáum á grýttum melum. Frjókornarannsóknir ◊. sýna að starir, grös og víðir tóku fyrst við sér og síðar birki. Birkið breiddist síðan ört út og náði hámarki fyrir um 7.000 árum enda er talið að veðurfar hafi verið milt með 2°C hærri meðalhita en nú er. Þetta skeið í gróðursögu landsins er kallað hið fyrra birkiskeið.


Fyrir um 6.500 árum hófst síðan 1.500 ára vætusamt skeið. Á því hörfuðu birkiskógarnir en votlendi og mýrar sóttu á og kallast það því fyrra mýraskeið. Nokkru seinna eða fyrir um 5.000 árum virðist meðalhiti hafa hækkað og úrkoma minnkað en það varð til þess að birki sótti aftur á. Kallast þetta skeið síðara birkiskeið. Talið er að á þessum tíma hafi gróður þakið um ¾ hluta landsins og að um helmingur landsins hafi verið þakinn birkiskógum og víði.


Birkiskeiðinu síðara lauk svo fyrir um 2.500 árum þegar loftslag fór aftur kólnandi og mýraskeiðið síðara hófst. Það stendur enn þótt hlýnað hafi um skeið í þann mund er landið var numið. Loftslagið kólnaði svo aftur á litlu ísöldinni frá 1250 til 1850.



Með nýjum rannsóknum og úrvinnslu á gögnum hafa verið settar fram tilgátur um hitafar á nútíma [Hólósen].


Nýtími hófst fyrir um 11.700 b2k þegar hitinn hækkaði hratt að loknu kuldaskeiði Yngra-Dryas. Hlýtt skeið [HCO] tók við frá 9.000 til 4.500 árum og náði það hámarki hita fyrir 8.000 árum b2k. Að þessu skeiði loknu lækkaði meðalhitinn uns hann náði lágmarki á litlu ísöldinni [LIA] sem 1450 til 1900.1


Ágiskanir um loftslag á Íslandi frá upphafi Íslandsbyggðar hafa veið settar fram og gera þær ráð fyrir að hlýtt afi verið fram yfir 1100 en þá tók við heldur kaldari tími fram yfir 1400. Litla ísöldin tók svo við frá 1400 til 1900. Síðan hefur veri mun hlýrra.2


Saga samfelldra veðurathugana í Stykkishólmi nær aftur til haustsins 1845 og er mælingaröðin þaðan sú lengsta á Íslandi og með því að nota slitróttari mælingar frá öðrum stöðum á landinu má meta hver líklegur árshiti var í Stykkishólmi á tímabilinu 1798 til 1845. Þannig má geta sér til um ársmeðalhita í Stykkishólmi frá 1798 til 2006.3




Heimildir:
1 Shaun A. Marcott et. al. 2013: „A Reconstruction of Regional and Global Temperature for the Past 11.300 Years“, www.sciencemag.org, 2013 VOL 339 SCIENCE
2 Trausti Jónsson 2007, vefsíða
< https://www.vedur.is/loftslag/loftslag/landnam >
3 Trausti J'onsson 2007, vefsíða
< https://www.vedur.is/loftslag/loftslag/fra1800/hitafar/ >