Landslag á tertíer hefur líklega verið frábrugðið því landslagi sem gefur landinu hvað sterkastan svip nú. Hvergi hafa verið jökulsorfnir firðir né tignarlegir stapar eða móbergshryggir. Landið hefur víðast hvar verið fremur slétt og tilbreytingarlítið með einstaka misgengisstöllum, gjám og gíghólaröðum. Hér og þar hefur láreistar dyngjur  og allháar eldkeilur borið við himin úti við sjóndeildarhringinn.  Víða hafa lindir sprottið fram við hraunjaðra og lygnar lindár liðast um dali. Í sigdölum og víðar þar sem grunnvatnsstaða var há voru mýradrög og flóar með smátjörnum. Laufblöð sem fuku út á tjarnir sukku til botns og grófust í leirinn á botninum en annars staðar náðu þykk mólög að myndast í mýrum. Seinna runnu svo hraunlög yfir tjarnirnar og mýrarnar. Laufblöðin steingerðust en mórinn varð að surtarbrandslögum sem óvíða eru þó þykkri en 0,5 - 1 m.