Jarðmyndanir á ísöld

Þar sem basalthraunlög þekja krókskeljalögin við Höskuldsvík er myndun hinna eiginlegu Tjörneslaga lokið. Ofan þeirra taka við svonefnd Furuvíkurlög og Breiðavíkurlög, en þau teljast til myndana frá fyrri hluta ísaldar (þ.e. eldri en 700 þúsund ára). Í þeim skiptast á hraunlög runnin á hlýskeiðum og á þurru landi en á milli þeirra eru setlög ýmist mynduð úr jökulbergi eða sjávarseti. Af þessu sést að á ísöld hafa skipst á hlýskeið og jökulskeið og að sjávarstaðan hefur verið breytileg. Víða í setinu má finna glerkennd korn sem benda til eldvirkni undir jökli og móbergsmyndunar á jökulskeiðunum.


Vegna eldvirkninnar eru Furuvíkur- og Breiðavíkurlögin séríslenskt fyrirbrigði. Hraunin sem runnu yfir eldri setlög sáu til þess að ísaldarjöklarnir náðu ekki að raska setlögunum heldur varðveittust þau áfram aðgreind frá yngri myndunum.


Hraunlögin sýna ýmist rétta (N) eða öfuga segulmögnun (R) og bendir það til umsnúnings segulsviðs. Segulmögnunin í berginu hefur verið notuð til að greina afstæðan aldur jarðlaga en til mælingar á raunaldri þeirra er fremur notuð svonefnd kalí-argon-aldursákvörðun. Hún hentar vel við aldursákvarðanir á íslensku storkubergi sem er eldra en 100 þúsund ára.


Hér á landi var áður venja að miða lok tertíer við upphaf ísaldar fyrir um 2,7 Má en nú hefur verið horfið frá því til að forðast rugling. Til samræmis við það sem tíðkast erlendis er nú miðað við að tertíer ljúki og kvarter hefjist fyrir 1,8 milljónum ára.


Venja er að skipta íslenskum jarðmyndunum frá ísöld í tvennt. Annars vegar eru jarðmyndanir frá síð-plíósen og fyrri hluta pleistósen sem eru 2,7 - 0,8 Má gamlar og teljast til fyrri hluta ísaldar. Hins vegar er um að ræða yngri jarðmyndanir frá síðari hluta ísaldar en þær eru 700.000 - 10.000 þúsund ára gamlar. ◊. Skilin markast af upphafi núverandi segulskeiðs fyrir 700.000 árum. Báðar myndanirnar hafa orðið til á hliðstæðan hátt og eru því líkar í flestu nema hvað aldurinn segir misjafnlega til sín. Munur jarðmyndana frá síð-plíósen og fyrri hluta pleistósen (þ.e. fyrri hluta ísaldar) annars vegar og jarðmyndana frá síðpleistósen (seinni hluta ísaldar) hins vegar felst því í aldri en ekki gerð. Stapar og móbergshryggir sjást ekki í eldri mynduninni því hraunin runnu aðeins að rótum þeirra en þöktu þá ekki. Jöklarnir jöfnuðu þá síðar við jörðu og dreifðu þeim sem jökulruðningi. Hin tignarlegu móbergsfjöll sem við sjáum í landslaginu nú eru því að öllum líkindum mynduð á seinustu jökulskeiðum og líklega flest á því allra seinasta.


Í Esjunni hefur 1650 m þykkur jarðlagastafli verið mældur og kortlagður og nær hann frá upphafi ísaldar (2,5 Má) þar til fyrir um 1,8 milljónum ára. Setlög og gosberg mynduð á ísöld eru um 1/3 af þessum jarðlagastafla.


Upphleðsla jarðlaga frá ísöld sést vel á þessu þversniði af Esjunni sem tekið er frá Tíðaskarði að Móskarðshnúkum og sýnt er á mynd: Þar má sjá annars vegar hvernig hraunlög runnin frá eldstöðvakerfum á hlýskeiðum hlóðust upp og mynduðu samfelldan stafla berglaga og hins vegar hvernig gos undir jökli hrúguðu upp móbergsmyndunum. Á meðan þessu fór fram rak eldstöðvakerfin út af gosbeltinu en ný og yngri kerfi tóku við innar á beltinu. Frá þeim runnu hraun sem kaffærðu smám saman eldri myndanir en þær eru misjafnlega mikið rofnar eftir jökla fyrri jökulskeiða. Hraunin fergðu líka eldri jarðlög þannig að halli þeirra inn að gosbeltinu óx stöðugt. Elstu og neðstu berglögunum hallar því mest en þeim yngstu minnst. Að síðustu mótuðu jöklar margra jökulskeiða landslag Esjunnar í núverandi mynd.