Helstu einkenni í gerð jarðlaga frá ísöld

Á ísöld skiptust á hlýskeið og jökulskeið. Um 10 jökulskeið eru þekkt frá síðari hluta ísaldar og álíka mörg frá fyrri hluta hennar. Jarðlög frá jökulskeiðum eru einkum jökulbergslög og gróft árset, móberg, bólstraberg, bólstrabrotaberg og glerkennd gjóskulög sem benda til goss undir jökli. Fínkornótt setlög eru yfirleitt gul eða brúnleit en rauður litur tertíerlaganna sést ekki. Steingervingar skelja og plantna bera vitni um kólnandi loftslag og miklar sjávarstöðubreytingar.


Jarðmyndanir frá hlýskeiðum ísaldar sýna að þá runnu hraun lík þeim sem mynduðust á tertíer og nútíma. Vegna aldursmunar er gosberg frá ísöld ekki eins ummyndað af efnaveðrun og gosberg blágrýtismyndunarinnar. Það er því gráleitara og gropnara og oft nefnt grágrýti þótt um basalt sé að ræða.


Víða finnast mólög undir hraunum og eru þau leifar gróskumikils gróðurs á hlýskeiðum. Eftir því sem á ísöldina leið líktist flóran smám saman þeirri flóru sem nú er hér. Kulvís lauftré og barrtré hurfu og áttu ekki afturkvæmt. Fura dó út fyrir um 1 milljón ára en elrir tórði þar til á þriðja síðasta hlýskeiði. Svo virðist því sem fyrstu hlýskeiðin hafi verið hlýrri en þau síðustu en loftslagi þeirra hefur líklega svipað til núverandi loftslags. Meðalhiti á jökulskeiðunum hefur hins vegar verið a.m.k. 5° - 10°C lægri en nú og snælína um 1000 m lægri eða víðast hvar við sjávarmál.


Hvergi er að finna hér á landi samfelldan stafla jarðlaga frá ísöld. Tjörnesmyndunin segir til um upphaf ísaldar en efst í henni er svonefnt Búrfellsbasalt sem er talið vera um 0,2 milljón ára. Það er talið álíka gamalt og setlög fundin í Elliðavogi við Reykjavík en þau ásamt Fossvogslögunum eru talin marka endalok ísaldar á Íslandi.