Sjávarföll

Sjávarföll verða fyrir áhrif aðdráttarafls tungls og sólar og eru því háð reglubundnum gangi tungls um jörðu og jarðar um sólu. Tunglmánuður er um 29,531 sólarhringar og snúningur jarðar miðað við tunglið tekur um 24 klst og 50 mín en á þeim tíma verður flóð og fjara tvisvar hér við land. Stórstreymt er tvisvar í hverjum tunglmánuði eða þegar tungl er nýtt og svo aftur þegar það er fullt en smástreymt er á fyrsta og þriðja kvartili. ◊.


Á Norður-Atlantshafi færist flóðbylgjan rangsælis umhverfis kyrrstöðupunkt sem er á Norður-Atantshafi miðja vegu á milli Írlands og Nýfundnalands. Flóðbylgjan skellur því hér að austurströnd landsins, fellur síðan vestur með landinu og þá norður og austur með norðurströnd landsins. Því er flóð sunnan Langaness um 6 klst á undan Reykjavík en á Þórshöfn norðan nessins verður flóð rúmum 11 stundum síðar eða 5 klst. og 16 mín. á eftir Reykjavík. Munur flóðs og fjöru er mestur á grunnsævi og þá einkum í fjörðum og flóum þar sem eigin tíðni vatnsmassans er í takt við sjávarföllin. Hér við land verður hæðarmunur flóðs og fjöru mestur suðvestanlands um 4 m en minnstur norðanlands og austan um 1,5 m. Á Hawaieyjum er aðeins um 0,5 m munur en í Fundyflóa við austurströnd Kanada verður munurinn einna mestur eða um 12-14 m enda er sú staðbylgja sem ríkjandi er í flóanum rúmir 12 tímar eða næstum því sú sama og tunglbylgjan. Loftþrýstingur hefur einnig áhrif á sjávarstöðuna. Falli loftvog um 50 millibör má gera ráð fyrir um hálfs metra hækkun á yfirborði sjávar vegna breytingarinnar á þrýstingnum.



Víða myndast straumþungar rastir vegna sjávarfalla, einkum milli eyja, í ósum, í fjarðarmynnum og við annes. Sem dæmi um slíkar rastir má nefna Hornafjarðarós þar sem straumhraðinn getur t.d. náð um 20 km/klst. Ennfremur má nefna rastir í mynni Hvammsfjarðar, Reykjanesröstina, Látraröstina, og Langanesröstina. Í röstum er straumhraði nægilegur til þess að hvirfilhreyfingar myndist og því er rofmáttur sjávarfalla mestur þar. Talið er að við slíkar aðstæður gæti straumsins jafnvel niður á 200 m dýpi. Líklegt er að skeljasandsbreiður t.d. eins og í Faxaflóa hafi sest til fyrir áhrif sjávarfalla.


Á grunnu vatni við strendur verður jörðin fyrir mótstöðu vegna sjávarfallabylgjunnar. Orkan sem fer í að yfirvinna mótstöðuna hægir ofurlítið á snúningi jarðar og nægir það til þess að sólarhringurinn hefur lengst um 0.001 sekúndu síðustu 100 árin.


Hafsvelgur eða svelgur [En: whirlpool, maelstrom; De: Strudel; No: malstrøm m (líkl. Úr flæmsku af so. male)], hringiðustraumur eða röst (sbr.: hafröst) vatns sem myndast vegna andstæðra strauma. Öflugir hafsvelgir geta verið varasamir sæfarendum. Stærstur og slíkra strauma er Moskeyjarröstin Saltstraumen við Lófóteyjaklasann í Norður Noregi.