Hafstraumar

Þegar vindar blása langtímum saman úr sömu átt yfir hafi eins og í staðvindabeltinu dregst yfirborð sjávarins með vindinum og myndar stöðuga hafstrauma. Þeir sveigja af leið þar sem þeir mæta ströndum meginlanda auk þess sem snúningur jarðar hefur áhrif á stefnu þeirra. Hafstraumar hafa lítinn hraða og lítinn rofmátt en þeir gegna miklu hlutverki í dreifingu varma um jörðina auk þess sem þeir stuðla að blöndun sjávar og dreifingu dýra- og plöntusvifs um höfin.


Mismunandi eðlismassi vegna hita- og seltubreytinga veldur einnig hafstraumum. Þannig geta eðlisþungir botnstraumar myndað iðustreymi úti við landgrunnsbrúnina og borið með sér gruggstrauma niður landgrunnshlíðarnar og niður í undirhlíðarnar. Víða má finna djúp gljúfur í landgrunnsbrúninni sem líklega eru mynduð á þennan hátt.