Uppblástur

Þegar vindur og vatn leggjast á eitt verður þeim vel ágengt í landmótun eins og víða sést hér á landi. Vindurinn nær sér best upp á aurum jökulfljóta, vikrum og í fjörusandi. Mikið af bergmylsnunni, sem vindurinn feykir með sér, er fremur grófkorna gjóska. Þar sem vindurinn blæs yfir gróið land sest mikill hluti foksins til í grassverðinum og veldur hraðri jarðvegsþykknun. Við það breytast mýrarnar í þurran og fremur grófkorna móajarðveg með lágri grunnvatnsstöðu og móajarðvegur sem fyrir er þykknar enn frekar. Þrátt fyrir talsvert magn af lífrænum efnum í móajarðveginum getur hann ekki talist frjósamur enda skolast næringarefni og leirkennd bindiefni hratt úr honum þannig að samkornun hans verður afar frumstæð. Gróðurþekja móajarðvegsins er því feikilega viðkvæm og verði hún fyrir minnsta hnjaski hættir henni við uppblæstri en uppblástur er samnefni fyrir vindrof og vindsvörfun á grónu landi.


Jarðvegsþykknun á einum stað gefur yfirleitt til kynna að vindrof hafi átt sér stað á öðru svæði. Fremur auðvelt er að rekja sögu jarðvegsþykknunar hér á landi frá ísaldarlokum til okkar tíma með því að mæla hana milli þekktra og aldursgreindra öskulaga og gera sér þannig grein fyrir uppblæstri frá ísaldarlokum til okkar tíma. Öskulögin, sem helst koma að gagni, eru öskulög Heklu og svokallað landnámslag sem breiddist um suðvestanvert landið frá gosi sem varð í Vatnaöldum og Hrafntinnuskeri.


Tímabilið frá ísaldarlokum fyrir 10.000 árum kallast nútími. Hlýjast var á þessum tíma, fyrir um 3000 - 4000 árum en þá er talið að um 3/4 hlutar landsins hafi verið grónir og að a.m.k. helmingur landsins skógi eða kjarri vaxinn. Loftslag kólnaði mjög fyrir um 2500 árum og hnignaði gróðri í kjölfar þess. Ekki er vitað með neinni vissu hvernig gróðri var háttað við landnám en margt bendir til þess að tæp 40% af flatarmáli landsins hafi verið þakin nokkuð samfelldri gróðurþekju og þar af hafi um helmingur verið vaxinn skógi. Nú þekur samfelld gróðurþekja aðeins um 20% af flatarmáli landsins en skógur tæplega 1%.


Engar einfaldar skýringar eru á samfelldri hnignun gróðurs hér á landi en þó hljóta áhrif búsetu að eiga stóran hlut í þeirri miklu gróðureyðingu sem orðið hefur frá upphafi búsetu í landinu. Margir samverkandi þættir koma hér við sögu eins og versnandi loftslag, gjóskugos, |H5|H4| H3 | Hekla 1104| jökulhlaup, árrof, búseta með rányrkju á skógum, ofbeit og slæm umgengni landsmanna.


Áhrif búsetu á gróðurfarið má greina í eftirfarandi atriði. Landið var fullnumið á árunum milli 900 - 1150 og er áætlað að íbúatalan hafi náð 70 þúsundum í lok þess tímabils en það er sá fjöldi sem hér getur lifað á sjálfsþurftarbúskap við bestu aðstæður. Talið er að nautgriparækt hafi verið undirstöðubúgrein en hún veldur sjaldnast mikilli ofbeit. Skógar voru nýttir til kolagerðar en húsaviður var líklega að miklu leyti fluttur inn. Um 1150 fór loftslag mjög kólnandi og hélst svo lengst af til 1850 en þá hlýnaði aftur. Með kólnandi loftslagi hurfu menn frá nautgriparæktinni en sneru sér að sauðfjárrækt í staðinn. Hrísi var safnað til eldiviðar og stærstu lurkarnir nýttir til húsagerðar því að um 1300 tók að mestu fyrir innflutning á trjáviði til húsagerðar. Kolagerð og hrístekja hefur líklega átt stærstan þátt í eyðingu skóga. Á þessum tíma voru gjóskugos tíð og ýttu þau ennfremur undir þá gróðureyðingu sem hófst með búsetunni. Frá 1850 til okkar daga hefur ekkert lát orðið á landeyðingunni enda lítið gert til að hindra ofbeit og rányrkju og snúa vörn í sókn með uppgræðslu.



Sjá INDEXL → landmótun → vindurinn.