Eyðimerkur

Stærstu eyðimerkursvæði jarðarinnar eru í fyrsta lagi á tveimur beltum við hvarfbaugana þar sem staðvindar eru ríkjandi. Á norðurhveli jarðar eru helstar Sahara, Arabíuskagi, og Kaliforníu-Sonora eyðimörkin í N-Ameríku en á suðurhvelinu er eyðimörk Ástralíu stærst.


Í öðru lagi eru einhverjar þurrustu eyðimerkurnar þar sem kaldir hafstraumar renna fram með vesturströndum meginlanda. Í þeim flokki eru helstar Atacama í Suður-Ameríku og Namibströndin og Kalaharí í Suður-Afríku.


Í þriðja lagi eru eyðimerkur langt inni á meginlöndum þar sem úrkoma er minni en uppgufun og má þar nefna eyðimörkina austan Kaspíahafs og Takla Makan- og Góbí-eyðimörkina. Á landamærum Pakistans og Indlands eru Cholistan- og Thar-eyðimerkurnar.


Þá eru í fjórða lagi mörg smærri eyðimerkursvæði þar sem fjallgarðar skýla fyrir mestallri úrkomu. Slíkar eyðimerkur eru t.d. austan Sierra Nevada í Norður-Ameríku. Á heimskautasvæðunum á norðvestanverðu Grænlandi og í íslausum dölum Suðurskautslandsins eru ennfremur þurr íslaus lífvana svæði þar sem meðalhiti er ávallt undir frostmarki.


Ísland telst ekki til ofangreindra svæða þótt vindrof sé hér verulegt, einkum þar sem vindur og vatn hjálpast að. Þetta er einkum áberandi á gosbeltunum þar sem jarðlög eru gropin og mikið er um laus gjóskulög á yfirborði.


Flestir tengja eyðimerkur við sandöldur enda þótt aurkeilur og annar árframburður sé þar algengari. Aðeins um þriðjungur Arabíuskaga og um níundi hluti Sahara eru þaktir sandöldum. Það er því augljóst að vatn á þar stærstan hlut í landmótuninni eins og víðast hvar annars staðar.


Líkt og víða í eyðimörkum erlendis myndast melþekja á íslenskum melum. Sandur og méla fýkur með vindinum en mölin situr eftir og þekur yfirborðið að lokum og við það stöðvast vindrofið.



Sjá INDEXL → landmótun → vindurinn.