Setmyndun jökulvatna

Set jökulvatna getur við fyrstu sýn líkst jökulruðningi en er þó ávallt auðþekkjanlegt við nánari athugun því það er lagskipt með einkennandi kornastærðir fyrir hvert lag.


Þar sem jökulár renna undan jöklum breiða þær úr sér um leið og þær hægja á sér og missa rofkraftinn. Við það fellur grófasti framburðurinn til botns og hleður upp víxl- og linsulaga áreyrum sem fylla smám saman dalbotninn þannig að hann verður troglaga \_____/. Slík jökulvötn kallast auravötn og slá þau sér víða um aurana með árvissu millibili eins og pendúll í klukku. Þetta sést t.d. vel hjá Austurfljótum í Hornafirði sem fellur undan Hoffellsjökli og ennfremur hjá Markarfljóti en þar hefur verið hlaðinn garður til að verja Landeyjar ágangi fljótsins.


Undir stöðnuðum jökultungum víkka þau göng sem árnar renna eftir. Við það minnkar rennslishraðinn og rofkrafturinn þannig að set hleðst upp við botninn og getur það myndað margra kílómetra langa hlykkjótta hryggi með aðalstefnu samhliða rennslisstefnu jökulsins. Þessir hryggir kallast malarásar. Malarásar eru hér á landi t.d. við jaðar Brúarjökuls milli Kverkár og Kringilsár en stærstir eru malarásar ísaldarjökulsins síðasta í Finnlandi, Svíþjóð og Norður-Ameríku. Þeir þykja góð vegarstæði og við rætur þeirra er oft að finna vatnsból auk þess sem setið í þeim er vel skolað og gott til bygginga. Á stöðnuðum jökultungum bráðna oft skvompur og lautir í ísinn þar sem vatn safnast í. Á botni slíkra vatna er tíðum setmyndun sem verður að malarkeilu þegar ísinn er horfinn.


Þar sem skriðjökull rennur um dal fellur jökulvatn oft í krikanum milli hlíðar og dals. Slíkar ár geta rofið slakka í hlíðina og ávallt hlaða þær upp seti sem myndar stalla í hlíðinni sem kalla mætti jaðarhjalla. Jaðarhjalla má sjá við Illugastaði og Þórðarstaði í Fnjóskadal.


Í sporðlónum og öðrum vötnum, sem jökulfljót renna um, sest fremur fíngert lagskipt set á botninn. Lögin úr stærstu kornunum eru talin myndast þegar sumarrennsli er í ánum en fínustu lögin myndast að vetri til. Slíkt set, þar sem lagskiptingin myndar síendurteknar syrpur, kallast hvarfleir.